Þakkar Björk fyrir allt með nýrri plötu

Færeyski tónlistarmaðurinn Heiðrik á Heygum, gefur nú út sína fjórðu …
Færeyski tónlistarmaðurinn Heiðrik á Heygum, gefur nú út sína fjórðu breiðskífu, Heiðrik Sings The Björk Song Book en þar heiðrar hann íslensku fjöllistakonuna, Björk. Ljósmynd/Lydia Hansen

Færeyski tónlistarmaðurinn Heiðrik á Heygum, sem hefur verið mikilvirkur í færeysku listasenunni á síðustu árum, gefur nú út sína fjórðu breiðskífu, Heiðrik Sings The Björk Song Book.

Með plötunni vill hann heiðra íslensku fjöllistakonuna Björk Guðmundsdóttur en hún var hetja hans þegar hann var að alast upp í Færeyjum og hjálpaði honum að finna sitt sanna og einlæga sjálf.

„Ég dreymdi daga mína í burt, hlustaði á tónlist og teiknaði“

„Björk var hetjan mín þegar ég var að alast upp. Færeyjar voru frekar erfiður uppvaxtarstaður fyrir samkynhneigðan einstakling á tíunda áratugnum. Samfélagið var bæði gamaldags og íhaldssamt. Ég hugsa að við séum um það bil 20 árum á eftir Íslandi. Fyrir ungan dreng með stóra drauma og frjótt ímyndunarafl voru Færeyjar afar lítill staður. Ég dreymdi daga mína í burt, hlustaði á tónlist og teiknaði.“

Heiðrik er 39 ára gamall og hefur aðsetur í bæði Kaupmannahöfn og Þórshöfn. Ferill hans hefur spannað marga mismunandi listmiðla og er hann óhræddur við að prófa nýja og skapandi hluti og ögra sjálfum sér. Hann lærði kvikmyndaleikstjórn í Danmörku, kom til Íslands og sótti listnám við Listaháskóla Íslands og hefur verið ansi öflugur innan tónlistarsenu Færeyja síðastliðin ár. 

„Tónlist hefur alltaf verið stór hluti af mér og færeyskri menningu. Á tímum var það hún sem hélt mér gangandi,“ segir Heiðrik.

Heiðrik er af nýrri kynslóð listafólks frá Færeyjum og er …
Heiðrik er af nýrri kynslóð listafólks frá Færeyjum og er þekktastur fyrir tónlistina sína en einnig myndlistarverk og kvikmyndir.

„Ég var líka skrýtinn, svo ég elskaði hana fyrir það“

Fyrir hann hefur tónlist alltaf verið hans leið inn í aðra veröld. „Þú gast látið þig dreyma, þú gast hlustað á sögur eða skapað þínar eigin. Þetta var svo frábær leið til þess að flýja leiðindi hins daglega lífs.“

Dagurinn sem Heiðrik sá Björk fyrst koma fram í sjónvarpi er honum fremur eftirminnilegur enda vakti hún og hennar „avant–garde“ stíll mikla hrifingu hjá honum og það við fyrstu sýn. 

„Ég held alveg örugglega að ég hafi séð Björk í fyrsta skiptið á sjónvarpsstöðinni MTV árið 1993. Ég var tíu ára gamall og heima í Færeyjum. Ég man að ég sá hana hlaupa í burtu frá stórum bangsa og ég varð strax húkkt. Þetta var eins og súrrealískt ævintýri sem ég hafði aldrei séð eða heyrt áður. Enginn annar á mínum aldri eða nokkur annar í kringum mig hlustaði á hana því þeim fannst hún svo skrýtin. En ég var líka skrýtinn, svo ég elskaði hana fyrir það. Loksins var einhver þarna úti eins og ég.“

Heiðrik í stúdíóinu við gerð plötunnar.
Heiðrik í stúdíóinu við gerð plötunnar.

Alltaf óafsakanlega hún sjálf

Heiðrik fann fljótt andlega tengingu við fjöllistakonuna og tónlist hennar og fljótlega hugrekkið til þess að vera hann sjálfur og skapa fyrir sig. 

„Ég var samkynhneigður, en inni í skápnum. Mér leið eins og ég væri frábrugðinn öllum hinum og var stöðugt lagður í einelti fyrir að vera þannig. En Björk var óafsakanlega hún sjálf og mér fannst ég þar af leiðandi ekki þurfa að skammast mín fyrir að vera öðruvísi.“

Plötuumslagið af Heiðrik Sings The Björk Song Book sem listamaðurinn …
Plötuumslagið af Heiðrik Sings The Björk Song Book sem listamaðurinn málaði sjálfur.

Þessi plata er þakkarbréf

Vegna alls sem Björk hefur óafvitandi gert fyrir Heiðrik, hefur hann lengi viljað heiðra hana en á sinn hátt. Hann kaus því að flytja lög hennar en með sínum hætti og bjó til einstakar djassaðar útsetningar ásamt frábæru teymi tónlistarmanna og er hann einstaklega stoltur af útkomunni.

„Tónlist Bjarkar var mér mikil huggun, vitandi að hún kom frá svipuðu landi og ég, með svipaða menningu og tungumál. Þessi plata er eins konar þakkarbréf, bæði til litla Heiðrik, Bjarkar og tónlistar hennar sem voru til staðar fyrir lítinn hinsegin strák í Færeyjum.“

Mynd tekin við upptöku plötunnar Heiðrik Sings The Björk Song …
Mynd tekin við upptöku plötunnar Heiðrik Sings The Björk Song Book.

Djass núna – diskó næst

Heiðrik ígrundaði vel og lengi hvaða lög úr söngbók Bjarkar hann ætti að flytja. Á endanum valdi hann tíu lög og valið inniheldur ekki endilega hennar þekktustu lög en þau eru öll í miklu uppáhaldi hjá Heiðrik og hefur hann sungið flest þeirra í mörg ár. 

„Lögin sem ég valdi eru ekki hennar bestu og vinsælustu smellir heldur lög sem mér fannst henta vel til djassflutnings. Mesti ótti minn við gerð plötunar var að þetta myndi hljóma eins og plata með Michael Buble, en ég reyndi af öllum mínum krafti að stýra frá því. 

Ég kaus að nefna plötuna Heiðrik Sings The Björk Song Book eins og allir gömlu frábæru djasssöngvararnir gerðu á sínum tíma þegar þeir heiðruðu sín átrúnaðargoð.

Söngvarinn ætlar ekkert að hægja á sér eftir útgáfu plötunnar og er með nóg af verkefnum framundan. Ég er í hljómsveit sem heitir Kóboykex, við spiluðum á Airwaves í fyrra og fengum frábæra dóma og það var æðislegt. Ég hef einnig verið að tala við vin minn á Íslandi um gerð nýrrar plötu, ég er að hugsa um, kannski diskó.“

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leggðu þig fram um að vera til staðar fyrir vini þína bæði í sorg og gleði því sjálfum þér gefurðu mest. Þú gleðst yfir því að öldurnar hefur lægt og allir eru á eitt sáttir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Laila Brenden
3
Liza Marklund
4
Lilja Sigurðardóttir
5
Ragnheiður Gestsdóttir

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leggðu þig fram um að vera til staðar fyrir vini þína bæði í sorg og gleði því sjálfum þér gefurðu mest. Þú gleðst yfir því að öldurnar hefur lægt og allir eru á eitt sáttir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Laila Brenden
3
Liza Marklund
4
Lilja Sigurðardóttir
5
Ragnheiður Gestsdóttir