Ed Sheeran í vöggu óþverrans

​Tók Ed Sheeran einhver Cradle of Filth-lög í Laugardalnum um …
​Tók Ed Sheeran einhver Cradle of Filth-lög í Laugardalnum um árið? mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þegar hann mætti í hljóðverið þennan dag kom hann ekki með her fjölmiðlamanna á hælunum, heldur bara einn með sjálfum sér, með gítarinn á bakinu, í Cradle of Filth-hettupeysu og kom sér beint að verki. Það var sturlað.“

Þannig lýsir Dani Filth, söngvari enska öfgamálmbandsins Cradle of Filth, því í málmgagninu Metal Hammer þegar ein stærsta poppstjarna samtímans, Ed Sheeran, stakk við stafni til að hljóðrita lag með bárujárnsberserkjunum fyrr í vetur. Morgunblaðið er ekki fyrst með þessa frétt, sögusagnir um þetta óvænta samstarf hafa lengi verið á kreiki, en nú fer það sumsé að bera ávöxt. Það verður eitthvað; að stilla Ed Sheeran og Cradle of Filth upp saman er eins og að tefla fiðrildi fram gegn skriðdreka.

„Ed er búinn að gera allt sitt. Ég á bara eftir að taka upp bassann og sönginn þegar við snúum aftur eftir páskana,“ heldur Dani Filth áfram en Cradle of Filth er á túr um Ameríku um þessar mundir. „Þetta hljómar alveg eins og þið getið ímyndað ykkur að Ed Sheeran og Cradle of Filth geri saman. Hann spilar á kassagítar en þetta er samt þungt; það er geggjað bít í þessu. Pælingin er að gera þetta að góðgerðarsmáskífu og vonandi kemur hún út í sumar.“

Ed Sheeran og Dani Filth brjóta brauð og skála í …
Ed Sheeran og Dani Filth brjóta brauð og skála í bjór. Á milli þeirra er upptökustjórinn Scott Atkins sem hlýtur að vera viðriðinn samstarfsverkefnið. ​ Instagram


Filth og Sheeran er vel til vina og þeir birtu til dæmis af sér ljósmynd á samfélagsmiðlum á dögunum að sporðrenna einum svellköldum á knæpu í tilefni af degi heilags Patreks. Filth viðurkennir að það sé samt svolítið undarlegt að vera vinur svo stórrar stjörnu. „Við höfum talað reglulega saman undanfarin tvö ár eða svo. Eins og ég þá er hann Suffolk-piltur í húð og hár.“

Þeir heyra þó hvor til sinni kynslóðinni í tónlist; Dani Filth verður fimmtugur í sumar en Sheeran er 32 ára. Ef þið eruð að velta því fyrir ykkur þá er Filth listamannsnafn; okkar maður heitir réttu nafni Daniel Lloyd Davey. Ekki mikill málmbroddur í því. Þess vegna var nafninu breytt. Danni óþverri gæti það útlaggst á hinu ástkæra ylhýra.

Lærði öll riffin

Boltinn fór að rúlla fyrir tveimur árum eftir að Sheeran upplýsti í samtali við breska götublaðið The Sun að hann hefði haft dálæti á dauðamálmi þegar hann var yngri og tilgreindi Cradle of Filth og Slipknot sérstaklega í því sambandi. „Ég lærði hin og þessi riff á gítarinn,“ sagði hann.

Goðið lét þess utan að því liggja að það gæti vel hugsað sér að gera dauðamálmplötu einn daginn. Flestir tóku því sem hverju öðru græskulausu gríni og þegar þetta var fyrst borið undir Dani Filth hló hann bara og sló sér á lær. „Ég trúi þessu þegar ég tek á því!“ skrifaði hann á samfélagsmiðlum. Einhverjum smekkvísum manni tókst þó að tengja þá félaga saman í framhaldinu og Sheeran bauð Filth í kaffi og kruðerí. Eftir það varð ekki aftur snúið.

„Hann náði mér strax,“ sagði Filth í samtali við Kerrang!-útvarpið á þessum tíma. „Hann bauð mér heim til sín en kvaðst líka geta tekið hús á mér. Ég benti honum þá á að ég ætti hvorki krá né þorp og við værum því betur settir hjá honum. Hann kvaðst vera til í hvað sem er. Bókstaflega. Og sagði að hann væri grjótharður aðdáandi. Satt best að segja virðist hann vera fínasti náungi.“

Nánar er fjallað um þetta óvænta samstarf í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú virðist sigla lygnan sjó þessa dagana og er sjálfsagt að þú njótir þess. Mundu að fara vel með það sem aðrir segja þér í trúnaði.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Laila Brenden
3
Liza Marklund
4
Lilja Sigurðardóttir
5
Ragnheiður Gestsdóttir

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú virðist sigla lygnan sjó þessa dagana og er sjálfsagt að þú njótir þess. Mundu að fara vel með það sem aðrir segja þér í trúnaði.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Laila Brenden
3
Liza Marklund
4
Lilja Sigurðardóttir
5
Ragnheiður Gestsdóttir