Josh Freese hefur formlega verið kynntur sem nýr trommuleikari Foo Fighters. Hljómsveitin tilkynnti fréttirnar í beinni útsendingu hinn 21. maí, meira en einu ári eftir andlát trommuleikara sveitarinnar, Taylor Hawkins.
Dave Grohl og aðrir meðlimir Foo Fighters kynntu arftaka Hawkins í útsendingu sem var haldin vegna útgáfu 11. stúdíóplötu sveitarinnar, But Here We Are. Félagarnir kusu að leika sér aðeins með opinberunina og fengu stór nöfn úr rokkheiminum til þess að aðstoða sig.
Í fyrstu virtist sem Chad Smith, úr Red Hot Chili Peppers, væri nýi trommuleikari sveitarinnar en hann vildi bara láta færa hvítan Mercedes-bíl sem var illa lagður. Því næst bankaði Tommy Lee, trommari Mötley Crüe, upp á en þá kom í ljós að hann var bara með matarsendingu frá P.F. Chang’s. Síðastur var trommari Tool, Danny Carey, sem mætti til að skila nýsnyrtum púðluhundum strákanna og því ljóst að þeir þrír voru ekki arftakar Hawksins.
Stuttu seinna heyrðist: „Ó, afsakið!“ Og þá snýst myndavélin að Freese, sem situr á bak við trommusettið og með kjuðana klára. Og þannig kynntu Foo Fighters, Josh Freese til leiks. Því næst spilaði hljómsveitin lögin af nýju plötunni sem er væntanleg 2. júní næstkomandi.
Freese, er trommuleikari í fremstu röð og hefur komið fram með Foo Fighters, tvívegis í kjölfar andláts Hawkins. Undanfarin ár hefur hann spilað með hljómsveitum á við Guns N’Roses, Nine Inch Nails, The Offspring, Weezer og Devo.
Foo Fighters, tilkynntu á gamlárskvöld að þeir hyggðust halda áfram starfi sínu og heiðra arfleið liðsfélaga síns með því að skapa tónlist og spila fyrir fólkið.
Taylor Hawkins, fyrrverandi trommuleikari Foo Fighters, lést hinn 25. mars 2022. Hawkins var einungis 50 ára gamall. Hann hafði spilað með rokkhljómsveitinni í rúma tvo áratugi.