Varar við óafturkræfum áhrifum á íslenskt samfélag

Heiðar Guðjónsson var til viðtals í hlaðvarpi Skoðanabræðra í liðinni …
Heiðar Guðjónsson var til viðtals í hlaðvarpi Skoðanabræðra í liðinni viku. mbl.is/RAX

Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri, var til viðtals í hlaðvarpi Skoðanabræðra í umsjón Bergþórs og Snorra Mássona í liðinni viku.

Þar ræddi hann meðal annars um stöðu sitjandi ríkisstjórnar og það sem hann lýsti sem vangetu hennar til að taka á mikilvægum pólitískum málum, en hann segir lækkandi fæðingartíðni á Íslandi í bland við mikinn innflutning erlends vinnuafls, vera á meðal slíkra mála. 

Heiðar nefnir að í Kína bendi mannfjöldaþróun til þess að Kínverjum muni fækka gífurlega á komandi áratugum, sem hafi í för með sér gífurleg umskipti fyrir þjóðfélög. Þróunin á Íslandi sé hins vegar öðruvísi enda sé fólksfjölgun drifin áfram af innflytjendum, en að það hafi aftur á móti önnur og mögulega varanleg áhrif á íslenskt samfélag.

Um 4.400 fæddust á Íslandi árið 2022 á meðan tæplega 10.000 manns fluttust til landsins frá útlöndum.

„Það þarf að skoða þetta núna vegna þess að íslensk menning og íslensk tunga er ástæða þess að ég er hérna. Það er það sem bindur mig við mína fjölskyldu og mína heimahaga og annað þvíumlíkt. Þannig að ef því sleppir og ég verð einhvern veginn gestur í eigin landi þar sem allir tala bara ensku eða einhver önnur tungumál, þá myndi ég ekki búa hér. Þannig að ef við ætlum að leyfa þessari fólksfjölgun að eiga sér stað á þessum forsendum, að íslenska og íslensk menning sé ekki samnefnari heldur bara að þetta sé einhvern veginn alls konar, þá er útséð með íslenska þjóð. Ég er ekki að tala um Ísland fyrir Íslendinga, en bara þennan menningarheim sem við höfum búið í hérna í 1200 ár,“ segir Heiðar.

„Þetta er að gerast en enginn hefur orð á því“

„Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera í þessu ömurlega stjórnarsamstarfi núna í sex ár og það gengur hvorki né rekur. Þau geta ekki komið sér saman um eitt né neitt. Ríkisstjórnin er hálfgert rekald og það er algerlega stefnulaust. Þannig að stór mál sem skipta okkur máli, eins og íslensk tunga og menning og hvernig þetta fjölmenningarsamfélag mun hafa áhrif á okkar samfélag og breyta því varanlega og hugsanlega óafturkræft. Hvaða skoðun höfum við á því?“

Heiðar segir það galna hugmynd að skipta úr íslensku yfir á ensku hér á landi, möguleiki sem málsmetandi aðilar ræddu til dæmis hér á árunum fyrir hrun.

„En núna er þetta að gerast en það hefur bara enginn orð á því eða athyglina á því. Svona ríkisstjórnarsamstarf, sem á að vera þvert yfir allt, þetta er ekta mál sem þau ættu að geta rætt. Þetta snýst ekki um sósíalisma eða kapítalisma, heldur alger undirstöðuatriði,“ segir Heiðar.

Fæðingartíðni að hrynja

Heiðar kveðst engar áhyggjur hafa af offjölgun, eins og sumir hafa. „Við sjáum bara hvað Evrópubúar og ég tala nú ekki um Íslendingar, eru hættir að fjölga sér. Eina fólksfjölgunin sem á sér stað hér er eiginlega með innflutningi fólks. En fæðingartíðni til að menn viðhaldi sama fólksfjölda þarf að vera 2,1 en á Íslandi í dag er hún komin niður í 1,6 og í Evrópu og í Þýskalandi er þetta dottið undir einn,“ segir Heiðar.

Heiðar segir þetta einkum stafa af skorti á trú á framtíðina. „Ef þú ert bjartsýnn þá er lífið miklu skemmtilegra og þá viltu að fleiri upplifi þetta skemmtilega líf. Ef þú hefur ekki trú á framtíðinni ertu svartsýnn og ég vil oftast ímynda mér að svoleiðis fólk sé vinstrisinnað. Það sér ekki þessa hamingju sem er í framtíðinni og heldur að lífið sé komið á endastöð og að nú þurfi bara að vinna sem best úr því sem er til staðar,“ segir Heiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu það ekki setja þig úr jafnvægi, þótt eitt og annað gangi á í kring um þig. Mundu að horfa á það jákvæða í lífinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Hugrún Björnsdóttir
3
Anna Margrét Sigurðardóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu það ekki setja þig úr jafnvægi, þótt eitt og annað gangi á í kring um þig. Mundu að horfa á það jákvæða í lífinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Hugrún Björnsdóttir
3
Anna Margrét Sigurðardóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Torill Thorup