Áhrifavaldurinn og raunveruleikastjarnan, Patrekur Jaime, sló óvænt í gegn í gær þegar hann skellti sér í fjallgöngu á Esjuna í góðra vina hópi. Á leiðinni tók hann einn frægasta smell Bríetar, Esjuna, en breytti textanum örlítið.
Í upprunalega texta lagsins syngur Bríet: „Því að Esjan er falleg en ekki fallegri en þú.“ Patrekur tók málið hins vegar í eigin hendur og ákvað að gera smávægilegar breytingar á textanum og sneri honum upp á sjálfan sig. Hann söng því: „Því að Esjan er falleg en ekki fallegri en ég.“
Við myndskeiðið skrifaði Patrekur: „Bríet Who?“ eða „Hvaða Bríet?“
Myndskeiðið hefur vakið þó nokkra athygli á samfélagsmiðlum og hefur þegar fengið yfir þrjú þúsund áhorf á TikTok. Þá virðast margir hafa skoðun á flutningi Patreks, en í vinsælustu ummælunum við myndskeiðið er hann sagður vera „næsta aðalpoppstjarna Íslands.“
Bríet var ekki lengi að svara myndskeiði Patreks, en hún gerði svokallaðan dúett með honum og virtist hafa mikinn húmor fyrir textabreytingunni.
@brietbaby #duet with @Patrekur Jaime ❤️👌 ♬ original sound - Patrekur Jaime ❤️👌
Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem snúið er upp á texta í lagi eftir Bríeti, en í sumar leiðrétti hún algengan textamisskilning í lagi hennar Fimm ár á Instagram.
„Textinn er: „Verða fimm ár liðin og ég sakna þín enn þá“ Ok lovejú bæ,“ skrifaði hún við færsluna, en ófáir hafa gerst sekir um að skipta einu orði út, rétt eins og Patrekur gerði, og því sungið: „Bara fimm ár liðin og ég sakna þín enn þá.“