„Það er kominn tími til að þessi listgrein standi jafnfætis öðrum listgreinum í landinu. Eins og Þjóðleikhúsið, eins og Sinfónían og Dansflokkurinn. Sá tími er kominn og Lilja er tilbúin að berjast fyrir þessu,” segir Þórunn Sigurðardóttir, sem stýrir undirbúningi nýrrar þjóðaróperu, í nýjasta hlaðvarpsþætti Einars Bárðarsonar, Einmitt. Hún vísar þar til Lilju Alfreðsdóttur menningarráðherra.
Þórunn er formaður undirbúningsnefndar um stofnun þjóðaróperu en nokkur styr hefur staðið um þau áform.
Áformin hafa verið sögð til höfuðs Íslensku óperunni en Þórunn telur að stjórnendur Íslensku óperunnar og undirbúningsnefndin muni ná saman fyrr eða síðar.
Þórunn fer yfir þetta nýja verkefni hennar, aðdraganda og forsendur þess að hún tók verkefnið að sér í þessu samtali þeirra Einars.
Hugmyndir um þjóðaróperu má rekja allt aftur til ársins 1957 þegar Ragnhildur Helgadóttir þingkona, og síðar ráðherra, vakti fyrst máls á stofnun slíkrar óperu. Svo aftur árið 1978 þegar Ragnar Arndals, þáverandi menntamálaráðherra, sagði að engin stétt listflytjenda væri jafn óafskipt og söngvarar.
„Okkar verkefni er að undirbúa þetta þannig að fyrsti óperustjóri þjóðaróperu hafi tækifæri til að vinna að sinni sýn. Þannig sé það ekki verkefni nefndarinnar að binda hendur stjórnandans til framtíðar. Við erum að skoða formið og reksturinn víða um Evrópu og hvernig fjármunir eru best nýttir fyrir listina,“ segir Þórunn.
Þáttinn Einmitt er að finna á öllum almennum hlaðvarpsveitum.