Bandaríski tónlistarmaðurinn Marilyn Manson játaði fyrir dómara héraðsdóms Laconia í New Hampshire á mánudag að hafa bæði hrækt og snýtt á myndatökumann á tónleikum sínum hinn 19. ágúst 2019. Fyrir uppákomuna var Manson sektaður og dæmdur til 20 klukkustunda samfélagsþjónustu.
Samkvæmt ákæruskjali var Manson, sem heitir réttu nafni Brian Warner, ákærður fyrir að hafa veist að Susan Fountain, sem var þá við tökur á tónleikum söngvarans, og hrækt á hana. Manson endurtók leikinn seinna um kvöldið en kaus þá að snýta sér utan í konuna.
Myndbandsupptökur Fountain sýna söngvarann benda á hana og hlæja.
Sjálf mætti Fountain ekki fyrir héraðsdóm, en lögð var fram yfirlýsing af hennar hálfu. „Ég hef starfað í þessu fagi í yfir 30 ár og hef aldrei upplifað mig jafn niðurlægða og þarna,“ kom meðal annars fram í yfirlýsingu hennar.
Fountain lagði fram ákæru á hendur söngvaranum árið 2021.