Bandaríski tónlistarmaðurinn Sufjan Stevens hefur greinst með heilkennið Guillain-Barre, sem er sjaldgæfur taugasjúkdómur.
„Í síðasta mánuði vaknaði ég upp einn daginn og gat ekki gengið,” sagði Stevens á Instagram. „Hendur mínar og fætur voru dofin og ég hafði engan styrk lengur, fann ekki fyrir neinu og gat ekki hreyft mig.”
Stevens, sem er 48 ára, sagði að bróðir sinn hefði ekið sér á bráðamóttökuna og eftir rannsóknir lækna hefði hann verið greindur með Guillain-Barre sem er sjálfsofnæmissjúkdómur. Ofnæmiskerfið skemmir taugafrumurnar og hefur áhrif á vöðvana, sem geta lamast.
„Sem betur fer er hægt að meðhöndla þetta - þeir gefa manni hemóglóbín-ofnæmislyf í fimm daga og og vona að sjúkdómurinn dreifi sér ekki í lungun, hjartað og heilann,” sagði indí-tónlistarmaðurinn kunni, sem spilaði í Fríkirkjunni árið 2006 við góðar undirtektir. „Þetta skaut mér skelk í bringu en virkaði.”
„Ég varði um tveimur vikum í sjúkrarúmi á meðan læknarnir gerðu sitt besta til að halda mér á lífi og gera ástand mitt stöðugt. Ég á þeim líf mitt að launa," sagði hann.
„Flestir sem greinast með GBS læra að ganga upp á nýtt innan árs, þannig að ég er vongóður,” bætti hann við.
Stevens segist núna vera í endurhæfingu en vegna veikindanna getur hann ekki fylgt eftir nýju plötunni sinni, Javelin, sem kemur út í næsta mánuði.
Hann er einn þekktasti indí-tónlistarmaður Bandaríkjanna. Árið 2018 var hann tilnefndur til Óskarsverðlaunanna fyrir lagið Mystery of Love úr myndinni Call Me By Your Name.