Ástralska leikkonan Pheobe Tonkin var aðeins 17 ára gömul þegar hún skaust upp á stjörnuhimininn árið 2006 þegar sjónvarpsþættirnir H2O: Just Add Water voru frumsýndir. Tonkin fór með hlutverk Cleo Sertori í þáttunum sem nutu mikilla vinsælda um allan heim.
Þættirnir fjalla um líf þriggja unglingsstúlkna sem breytast í hafmeyjur og komu alls þrjár þáttaraðir út. Yfir 250 milljónir áhorfenda fylgdust með þáttunum um allan heim, en síðasti þátturinn var sýndur hinn 16. apríl 2010.
Tonkin sló rækilega í gegn með hlutverki sínu og var hún tilnefnd sem besta aðalleikkona í sjónvarpsseríu á Australian Film Institute Awards árið 2008.
Árið 2011 flutti Tonkin til Los Angeles og lék í ýmsum þáttum og kvikmyndum, en hún fór til dæmis með hlutverk í Tomorrow, When the War Began, The Secret Circle, The Vampire Diaries og The Originals. Sama ár var leikkonan útnefnd ein af sjónvarpsstjörnum ársins af E! og komst inn á lista Variety yfir ný andlit líkleg til vinsælda í Hollywood.
Árið 2019 skrifaði og leikstýrði Tonkin svo fyrstu stuttmyndinni, Furlough, sem var sýnd um allan heim á kvikmyndahátíðum.
Tonkin á einnig að baki fyrirsætuferil, en hún hefur birst í fjölda auglýsinga og verið í tökum fyrir Girlfriend, Teen Vogue, Elle Australia, Vogue Australia og Free People. Þá hefur hún einnig unnið með tískuhúsinu Chanel og var ein af níu konum sem tóku þátt í stafrænni herferð tískuhússins árið 2018.
Það er því óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá því ferill hennar fór á flug í H2O-þáttunum vinsælu, en Tonkin er í dag 34 ára gömul og hefur tekið þátt í mörgum spennandi verkefnum á hinum ýmsu sviðum.