Þátturinn Vikan með Gísla Marteini á Ríkisútvarpinu mun bjóða upp á þá nýjung í vetur að nú verða áhorfendur í sal við tökur á þættinum.
Þetta tilkynnti Gísli Marteinn Baldursson á samfélagsmiðlinum X, áður þekktur sem Twitter, í gær.
Þættirnir hefja göngu sína á nýjan leik 29. september og hægt er að reyna að næla sér í sæti í salnum með því að senda Gísla Marteini skilaboð á X, að því er kemur fram í færslunni.
Núna er slétt vika í að #vikan hefjist á ný, 29. sept. Við verðum með áhorfendur í sal í vetur og ef þið hafið áhuga á því að koma og vera með okkur í beinni megið þið gjarnan senda mér DM hingað (held að það sé opið og öll geti sent) og ég set ykkur á lista.
— Gísli Marteinn (@gislimarteinn) September 22, 2023
Á vef Ríkisútvarpsins er Vikunni með Gísla Marteini lýst á eftirfarandi hátt:
„Gísli Marteinn tekur á móti góðum gestum á föstudagskvöldum í vetur og fer með þeim yfir helstu atburði vikunnar í stjórnmálum, menningu og mannlífi. Persónur og leikendur koma í spjall og brakandi fersk tónlistaratriði koma landsmönnum í helgarstemninguna.“