Bandaríski gítarleikarinn Al Di Meola liggur á sjúkrahúsi eftir hjartaáfall. Di Meola hneig niður á miðjum tónleikum sínum í Rúmeníu á miðvikudag. Ástand hans er sagt stöðugt.
Di Meola fékk stingandi verk í bringuna og sást grípa fyrir hjartað í miðju lagi. Gítarleikarinn staulaðist af sviðinu og fékk neyðarhjálp.
Hljómsveitarmeðlimir Di Meola héldu áfram að spila fyrir tónleikagesti í nokkrar mínútur en tónleikunum var aflýst þegar gítarleikarinn var fluttur á sjúkrahús.
Talsmaður fyrir Bagsar-Arseni sjúkrahúsið í Búkarest sendi frá sér yfirlýsingu og sagði að Di Meola hefði fengið hjartadrep með ST-hækkunum (STEMI) en það er lífshættulegt ástand og mikilvægt að greina og meðhöndla án tafar.