Arnold Schwarzenegger segist sjá eftir framhjáhaldi með húshjálp fjölskyldunnar, Mildred Baena, sem batt enda á hjónaband hans og fyrrverandi eiginkonu hans Maria Shriver árið 2011.
Eftir framhjáhaldið eignuðust Schwarzenegger og Baena soninn Joseph, en hann fæddist aðeins fimm dögum eftir að vöðvatröllið tók á móti syninum Christopher með Shriver. Það kom þó ekki í ljós fyrr en að Joseph var á 14. ári að hann væri sonur Schwarzenegger og í kjölfarið sótti Shriver um skilnað.
„Þetta voru bara mistökin mín. Mundu að það er ekki eins og við höfum átt í deilum. Við höfðum ekki verið að rífast,“ sagði Schwarzenegger í samtali við People. Hann tók þó fram að þrátt fyrir framhjáhaldið væru þau Shriver enn í góðu sambandi og hefðu alltaf sett börnin sín í fyrsta sæti.
„Kafli minn með Mariu mun halda áfram að eilífu. Jafnvel þó að þetta sé öðruvísi samband þá er engin ástæða fyrir mig til að finna fyrir neinu öðru en ást til hennar,“ bætti hann við.