Hún rífur úr sér annað augað sem fellur svo niður til heljar, sýslar með sver kjötstykki, þeysir um á risavöxnu grænu skrímsli, vangar við manninn með ljáinn og daðrar við sjálfan kölska. En umfram allt málar hún þó bæinn rauðan.
Tónskýrendur eru á einu máli um að bandaríska tónlistarkonan Doja Cat sé að svara gagnrýnendum sínum, sem hafa haft sitthvað við hana að athuga á umliðnum árum og misserum, í ofursmelli sínum Paint the Town Red sem óhætt er að kalla eitt vinsælasta lag ársins, alltént til þessa. Það sat um tíma á toppi bæði bandaríska og breska vinsældalistans.
Öll þekkjum við merkingu orðatiltækisins að mála bæinn rauðan en Doja Cat fer með það í nýjar hæðir í laginu.
„Yeah, bitch I said what I said
I’d rather be famous instead
I let all that get to my head
I don’t care, I paint the town red.“
Þarna er hún klárlega að gefa höturunum fingurinn. Segja að þeir komi ekki lengur við kaunin á henni, hún haldi bara ótrauð sínu striki og skemmti sér í botn, burtséð frá því hvað hatararnir komi til með að hugsa og segja.
Sumir hafa gengið svo langt, í ljósi þess hversu blóðugt myndbandið við lagið er, að halda því fram að Doja Cat sé í raun og sann að kalla dauða yfir alla sem eigi það skilið. Það að mála bæinn þýði sumsé að ganga milli bols og höfuðs á hyskinu. Þá erum við vitaskuld að tala myndmál. Ekki skal mat lagt á það hér.
Sjálf hefur Doja Cat verið borin saman við mykrahöfðingjann, í ræðu og riti, samanburður sem fór hreint ekki vel í hana. Í ljóðinu, sem hún samdi sjálf, segir ennfremur:
„Mm, she the devil
She a bad lil’ bitch, she a rebel
She put her foot to the pedal
It’ll take a whole lot for me to settle.“
Doja Cat liggur ekki á skoðunum sínum. Þannig fer hún ekki í grafgötur með þá staðreynd að hún hafi fram að þessu verið að senda frá sér markaðs- og söluvæna tónlist. Það hafi á hinn bóginn leitt til þess að hún hafi komist þangað sem hún er. Á nýju plötunni, Scarlet, standi hún eigin eðli á hinn bóginn miklu nær. „Núna er ég að gera tónlist sem gerir mér kleift að tjá mig um það hvernig heimurinn verkar á mig … Heimspekin í verkum mínum hefur náð mun betur í gegn í seinni tíð vegna þess að haturs- og reiðimenning hefur verið mér innblástur,“ sagði hún í samtali við miðilinn The Line of Best Fit.
Doja Cat þykir í senn sérvitur og uppátækjasöm, eins og þegar hún mjálmaði sig gegnum heilt viðtal á rauða dreglinum í sumar. Já, við erum að tala um eiginlegt mjálm. Hún svaraði öllum spurningum með mjá eða mjá, mjá. Jafnvel mjá, mjá, mjá.
Umboðsmaður hennar, Gordon Dillard, segir í samtali við tímaritið Variety að skjólstæðingur sinn sé alltaf að troða upp, hvort sem það sé í samkvæmum eða á tónleikum. „Lesi hún bók er ég næsta viss um að það yrði gjörningur. Þannig er hún bara. Doja er Madonna okkar kynslóðar eða Lady Gaga, svo hátt getur hún spennt bogann. Við erum bara rétt byrjuð að gára vatnið.“
Nánar er fjallað um Doja Cat í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.