„Engin ástríða eða hugsjónir þarna á bak við“

Arnar Eggert segir fréttirnar af endurkomu Oasis risastórar.
Arnar Eggert segir fréttirnar af endurkomu Oasis risastórar. Samsett mynd

„Ég gæti talað næstu tvo daga um þetta,“ segir tónlistarfræðingurinn Arnar Eggert Thoroddsen um endurkomu rokkhljómsveitarinnar Oasis sem hann lýsir sem eins konar húsbandi bresku þjóðarinnar.

Eins og frægt er lagði hljómsveitin skyndilega upp laupana árið 2009 eftir að aðalgítarleikari sveitarinnar, Noel Gallagher, sagði sig úr henni vegna erja við bróður sinn og aðalsöngavarann Liam Gallagher.

Síðan eru liðin 15 ár og hafa margir velt fyrir sér mögulegri endurkomu sveitarinnar en hún varð loks staðfest í gær.

„Strákarnir á pöbbnum syngja með“

„Byssurnar eru hljóðnaðar. Stjörnurnar hafa raðast upp. Biðin er á enda. Komið og sjáið. Þessu verður ekki sjónvarpað,“ sagði í tilkynningu sveitarinnar um endurkomuna en þar kom fram að hún muni halda í tveggja vikna tónleikaferðalag um Bretland og Írland á næsta ári.

Arnar segir fréttirnar ekki hafa komið honum beint á óvart. Hann hafi í gegnum tíðina sveiflast milli þess hvort Oasis muni snúa aftur eða ekki.

„En ég vissi alveg að ef þetta myndi gerast yrði þetta risastórt af því þetta er svona húshljómsveit Breta að einhverju leyti, svona strákarnir á pöbbnum syngja með. Þetta eru risafréttir og bara áhugavert,“ segir Arnar.

Allt tónleikar á leikvöngum

Arnar hefur trú á að endurfundirnir muni ganga vel og efast ekki um að salan á tónleikana verði góð.

„Þú sérð að þetta eru allt leikvangar á tímum þar sem ekki er að seljast vel á leikvangatónleika almennt,“ segir Arnar og bætir við: 

„Það sýnir að það er mjög sterk staða hjá bandinu og þeir bræður munu aldrei ná upp í þessar hæðir í sitthvoru lagi. Á meðan það eru alveg til dæmi um hitt, að ákveðnir listamenn verða enn stærri en þær hljómsveitir sem þeir koma úr en það er ekki í þeirra tilfelli.“

Rétt er að geta þess að liðsmenn Oasis eru engir viðvaningar þegar kemur að því að spila fyrir mikinn fjölda en árið 1996 hélt hljómsveitin tvo 125 þúsund manna tónleika í Knebsworth en enn þann dag í dag eru það fjölmennustu tónleikar í sögu Bretlands.

Peningarnir ráða för

Spurður hvort hann muni eftir sambærilegum hljómsveitarendurfundum segist Arnar ekki muna eftir neinu á þessum skala í fljótu bragði en hann tekur fram að hann efist um að ástríða fyrir tónlistinni liggi að baki endurkomunni.

„Þetta er auðvitað allt bissness, þetta gerist þegar það fer að tæmast í sjóðunum. Það er nú ekki flóknara en það.“

Þannig þú telur ekki að það sé hugsjón sem liggi að baki?

 „Alls ekki. Þetta eru kaldir Norður-Englendingar og það er enginn ástríða eða hugsjónir þarna á bak við. Þetta eru bara peningar.“

Þessi kenning Arnars rímar ágætlega við orð Liams Gallagher en árið 2010 gaf hann út að Oasis myndi ekki koma aft­ur sam­an fyrr en meðlim­ir sveit­ar­inn­ar væru komn­ir á haus­inn og þyrftu á pen­ing­un­um að halda.

„Ekkert listakjaftæði“

Arnar bætir þó við að það hafi ekki alltaf verið peningar sem réðu ferðinni hjá Oasis-liðum.

„Þegar þeir byrja og slá í gegn brunnu þeir alveg fyrir að gera rokk og ról. Oasis var svipað og þegar pönkið kom á sínum tíma. Oasis var svona retró.

Einföld lög, bítlahljóma og bara stuð. Við erum ekkert að flækja þetta, ekkert listakjaftæði. Að því leitinu til er Oasis ólík Blur,“ útskýrir Arnar.

Að lokum segir hann aðspurður að uppáhalds Oasis-lagið sitt sé Roll With It af hinni klassísku plötu (What's the Story) Morning Glory? sem út kom árið 1995.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lánið virðist leika við þig þessa dagana og þér er óhætt að njóta þess meðan það stendur. Dragðu það fram eftir degi að segja öðrum til syndanna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sólveig Pálsdóttir
2
Ragnheiður Jónsdóttir
3
Moa Herngren
4
Jojo Moyes
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lánið virðist leika við þig þessa dagana og þér er óhætt að njóta þess meðan það stendur. Dragðu það fram eftir degi að segja öðrum til syndanna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sólveig Pálsdóttir
2
Ragnheiður Jónsdóttir
3
Moa Herngren
4
Jojo Moyes
5
Birgitta H. Halldórsdóttir