Brian May, gítarleikari bresku hljómsveitarinnar Queen, segist vera á góðum batavegi eftir að hafa fengið vægt heilablóðfall fyrir rúmri viku síðan. May greindi frá þessu í færslu á Instagram-síðu sinni á þriðjudag.
May missti skyndilega allan mátt í vinstri handleggnum en hefur nú fengið máttinn að nýju.
„Þetta var óþægileg tilfinning. Ég hafði enga stjórn á vinstri handleggnum,” sagði gítarleikarinn meðal annars í myndskeiðinu.
May, sem á heiðurinn af þekktustu lögum Queen, sagðist vera afskaplega þakklátur heilbrigðisstarfsfólkinu á Frimley Park-sjúkrahúsinu í Surrey á Englandi og viðurkenndi að vera byrjaður að plokka gítarstrengina á ný eftir erfiða daga.