Verkefni s.ap arkitekta, Hraunmyndanir hefur verið valið framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025.
Leitað var að sterkri og áræðinni hugmynd að sýningu sem veitir innblástur, vekur til umhugsunar en er um leið raunhæf og framkvæmanleg segir í tilkynningu frá Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
„Alls bárust tólf tillögur að sýningu í opnu kalli sem auglýst var í lok apríl af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Fjórar tillögur voru valdar til frekari kynninga fyrir stýrihóp verkefnisins sem sá um að valið. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr með opnu kalli,“ segir í tilkynningunni.
Arnhildur Pálmadóttir er listrænn stjórnandi Hraunmyndana og annar eigandi s.ap arkitekta. Arnhildur hefur meðal annars sérhæft sig í sjálfbærni og hringrás í byggingariðnaði og er þekkt fyrir að nálgast verkefni með hugarfari frumkvöðuls og þverfaglegri nálgun.
Arnhildur er einnig einn af eigendum dansk-íslenska arkitekta- og nýsköpunarfyrirtækisins Lendager, sem sérhæfir sig í sjálfbærni og hringrás í mannvirkjagerð. Þá er Arnhildur tilnefnd til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir þverfaglega nálgun í sinni vinnu og áherslu á endurvinnslu byggingarefnis.
Í verkefninu Hraunmyndanir (e. Lavaforming) er sögð saga framtíðarsamfélags sem þróar framsæknar lausnir í mannvirkjagerð. Hraunrennsli er beislað, nýtt sem byggingarefni og tekst með því að umbreyta staðbundinni ógn í auðlind.
„Á tímum Snorra Sturlusonar, þegar síðast gaus á Reykjanesi var eldgos framandi viðburður. Í okkar sögu árið 2150 höfum við beislað hraunrennslið líkt og við gerðum með gufuaflið á 20. öld. Við vörðum söguna með atburðum sem höfðu áhrif á þróun og tækni en markmið hennar er að sýna að arkitektúr getur verið krafturinn sem endurhugsar og mótar nýja framtíð. Hraunflæði getur innihaldið nóg byggingarefni fyrir grunnstoðir heillrar borgar sem rís á nokkrum vikum án skaðlegrar námuvinnslu og óendurnýtanlegrar orkuöflunar.“
„Sýningartillagan Lavaforming er áræðin og ögrandi. Hún hefur alla burði til þess að vekja athygli á sérstöðu Íslands og hlutverki og mikilvægi arkitektúrs á tímum óvissu og áskorana með eftirminnilegum hætti. Sýningin miðlar sögu, samtíð og framtíð lands í stöðugri mótun – og hugkvæmni fólks sem sífellt þarf að aðlaga sig krefjandi aðstæðum. Hugmyndin skapar umræðu um mikilvægi nýsköpunarviljans og ímyndunaraflsins fyrir þróun samfélaga og virði þess að vísindi og listi vinni saman,“ segir í rökstuðningi stýrihópsins sem kom að valinu í ár.
Feneyjatvíæringurinn í arkitektúr fer fram í 19. sinn dagana 10. maí - 23. nóvember 2025, með foropnun 8. - 9. maí.