Andrés prins verður að greiða fyrir allt viðhald og öryggisgæslu á Royal Lodge-setrinu ef hann ætlar að búa þar áfram.
Karl III. Bretlandskonungur og konungsfjölskyldan ætla ekki að styðja hann áfram fjárhagslega um ókomna tíð svo hann geti búið þar. BBC greinir frá.
Þrýst hefur verið á prinsinn að flytja í ódýrara og íburðarminna húsnæði, til að mynda Frogmore Cottage, en hann hefur ekki tekið vel í þá hugmynd.
Andrés, sem býr í Royal Lodge ásamt fyrrverandi konu sinni Söruh Ferguson, er með leigusamning til ársins 2078 en nú hefur það skilyrði verið sett fram að hann þurfi sjálfur að standa straum af kostnaði við viðhald og gæslu.
Geti hann það ekki, verði hann að flytja.
Þrýstingurinn á Andrés mun þó ekki vera tilkominn vegna fjölskylduerja, heldur frekar af fjárhagslegum praktískum ástæðum.
Þó er talið að þrýstingurinn á að prinsinn flytji muni aukast enn eftir að mynd sem byggir á viðtali við hann í fréttaþættinum Newsnight árið 2019, þar sem hann ræddi vináttu sína við kynferðisbrotamanninn Jeffrey Epstein, kemur út í næstu viku.
Konunglegir sérfræðingar hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að Andrés prins haldi sig alveg til hlés í framtíðinni.