Leikarinn James Earl Jones er látinn, 93 ára að aldri. Er hann flestum kunnugur sem rödd Svarthöfða í Stjörnustríðsmyndunum og sem rödd Mufasa í hinni víðfrægu mynd um konung ljónanna.
CNN greinir frá.
Ferill Jones spannar yfir 60 ár þar sem hann fór frá litlu leikhúsi í norður Michigan til hæstu hæða í Hollywood þar sem hann birtist í tugum kvikmynda og sjónvarpsþátta.
Jones hlaut á ferli sínum þrenn Tony-verðlaun, tvenn Emmy-verðlaun, Grammy-verðlaun og Golden Globe-verðlaun. Var hann einnig tilnefndur til Óskarsverðlauna og var þar aðeins annar svarti leikarinn til að hljóta tilnefningu.
Þekktastur er Jones fyrir að hafa ljáð einni frægustu persónu hvíta tjaldsins, Svarthöfða, rödd sína í Stjörnustríðskvikmyndunum.
Er hann einnig þekktur fyrir að hafa verið röddin á bak við föður Simba, Mufasa, í Konungi ljónanna frá 1994. Var hann sá eini af aðalleikurum þeirrar myndar sem sneri til baka þegar myndin var endurgerð árið 2019.