Hnífaburður ungmenna hefur verið áberandi umræðuefni í samfélaginu undanfarna daga og eru margir áhyggjufullir yfir stöðunni. TikTok-samfélagsmiðlastjarnan Estefan Leó Haraldsson, oft kallaður Ezzi, og Óskar Breki Eiríksson sátu og borðuðu kjötsúpu á Álftanesi þegar þeir fengu þá hugmynd að láta framleiða boli með slagorðunum Veljum líf, ekki hníf.
„Okkur langaði að vekja enn þá meiri athygli á þessu vandamáli sem við erum að fást við sem samfélag,“ segir Estefan sem er 19 ára gamall. Óskar er jafnaldri hans. Estefan hefur miklar áhyggjur af stöðunni að hans sögn.
Hvernig hafa viðtökurnar verið?
„Við höfum selt yfir þrjú hundruð boli. Við höfðum samband við Margt Smátt, þeir voru rausnarlegir og gerðu þetta frítt. Enginn hagnast á þessu nema Birta landssamtök foreldra og forráðamanna sem hafa misst börn eða ungmenni skyndilega.“
Allur hagnaður af sölu bolanna rennur óskiptur til samtakanna.
Estefan er með tæplega tólf þúsund fylgjendur á TikTok og er vinsælastur á meðal unglinga. „Ég hef alveg fundið fyrir áreiti en oftast verið heppinn. Ég fæ oftast bara ást og tek myndir með krökkum eftir að ég byrjaði á samfélagsmiðlum. En þegar það er drykkja þá er áreiti og þegar fólk er farið að drekka þá vil ég ekki vera í kringum mikið af fólki.
En ég fer aldrei niður í bæ, nema það sé dagur. Vegna þess að ég vill ekki vera í hættu. Áður en ég fór að vera þekktur á samfélagsmiðlum fór ég ekki niður í bæ svo þetta hefur ekkert með það að gera,“ segir hann. „Það er hræðilegt að menn skuli bera hnífa á sér í meira mæli. Mig langar alls ekki að það verði lögleysa hér eins og var á víkingaöld.
Svo finnst mér að það ætti að setja upp fleiri öryggismyndavélar niður í bæ. Þegar fólk er ölvað og hömlulaust. Á meðan það er ekki fasistastjórn hér á Íslandi þá er ekkert að því að það séu fleiri myndavélar hérna í bænum.“
Þá segir hann mikilvægt að nýta áhrif sín til góðs. „Það er gott að gera góðverk og þetta var gott tækifæri til þess að láta gott af sér leiða.“
Hann ætlar að halda áfram að tala við unga fólkið í gegnum samfélagsmiðla og er nú farinn að segja fréttir á TikTok. „Mig langar að fræða unga fólkið í gegnum TikTok því unga fólkið veit mjög lítið um hvað er að gerast í samfélaginu.“
Veldu líf, ekki hníf bolirnir fást á meira.is.