Ofurstjarnan Taylor Swift hefur lýst yfir stuðningi við Kamölu Harris, frambjóðanda demókrata í forsetakosningum Bandaríkjanna í nóvember.
Swift birti stuðningsyfirlýsingu sína á Instagram að kappræðum Harris og Donald Trump, frambjóðanda repúblikana, loknum.
„Ég mun kjósa Kamölu Harris og Tim Walz í forsetakosningunum 2024.“
Kvittar söngkonan undir sem „barnlaus kattakona“ en varaforsetaefni Trumps, JD Vance, hefur óspart hæðst að og sett út á barnlausar og einhleypar kattakonur.
Swift er barnlaus og á nokkra ketti.
Hvatti Swift meðal annars til þess að aðdáendur hennar kynntu sér málefni frambjóðendanna tveggja er varða hinn almenna borgara. Notaði Swift sömuleiðis tækifærið til að leiðrétta falsfréttir um að hún hygðist styðja Trump í kosningunum.
„Nýlega var mér greint frá að gervigreindarútgáfa af „mér“ að lýsa yfir stuðningi mínum við forsetaframboð Donalds Trumps hefði verið birt á samfélagsmiðli hans. Það vakti mikinn ótta innra með mér um gervigreind og hættur tengdar upplýsingaóreiðu,“ skrifaði Swift.
„Það gerði mér ljóst að ég þyrfti að gegna gagnsæi varðandi raunveruleg áform mín í kosningunum. Einfaldasta leiðin til að berjast gegn upplýsingaóreiðu er sannleikurinn.“
Taldi Swift upp þó nokkur málefni sem væru henni mikilvæg og kvaðst sérstaklega ánægð með varaforsetaefnið Walz sem hafi barist fyrir réttindum hinsegin fólks, glasafrjóvgun og rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama.
Harris væri að hennar mati staðfastur og hæfileikaríkur leiðtogi sem gæti leitt landið til árangurs með yfirvegun – ekki glundroða.
Swift hefur áður lýst yfir stuðningi við forsetaframbjóðanda en það var Joe Biden árið 2020. Í heimildarmyndinni Miss Americana um líf söngkonunnar mátti sjá aðdraganda stuðningsyfirlýsingarinnar, sem reyndist Swift afar erfið í ljósi þess að hluti aðdáenda hennar eru stuðningsmenn Trump.