Varð rödd illskunnar

James Earl Jones árið 2015.
James Earl Jones árið 2015. AFP

Bandaríski leikarinn James Earl Jones lést á mánudag. Jones var fjölhæfur leikari, mikill á velli með sterka rödd, og kom fram bæði á sviði og í bíómyndum, en þekktastur var hann fyrir að ljá erkivarmenninu í Stjörnustríðsmyndunum, Svarthöfða, rödd sína. Jones var 93 ára gamall þegar hann lést.

Jones var jafnvel heima í leikritum Shakspeares og verkum Augusts Wilsons um veruleika svartra í Bandaríkjunum. Kraftmikil rödd hans hljómaði ekki aðeins í Stjörnustríðsmyndunum, heldur líka úr munni Mufasa í Konungi ljónanna, hinni klassísku teiknimynd Disneys.

Í þrígang hlaut Jones Tony-verðlaunin, þar á meðal fyrir ævistarf. Hann fékk tvenn Emmy-verðlaun, ein Grammy-verðlaun og heiðursóskar, einnig fyrir ævistarfið.

Árið 1971 var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir bestan leik í aðalhlutverki, annar svarti maðurinn til að hljóta tilnefningu á eftir Sidney Poitier.

Ekkert af þessu hlotnaðist honum án fyrirhafnar. Jones fæddist í Mississippi 17. janúar árið 1931 þegar þar ríkti enn aðskilnaður svartra og hvíta.

Jones léði Svarthöfða aðeins rödd sína, en David Prowse klæddist …
Jones léði Svarthöfða aðeins rödd sína, en David Prowse klæddist svartri skikkju og grímu illmennisins. AFP

Stamaði í æsku

Hann stamaði í æsku, sem varð til þess að hann forðaðist jafnvel að opna munninn, en tókst síðar að yfirvinna það.

„Það er sárt að stama. Í sunnudagaskólanum reyndi ég að lesa textann minn og krakkarnir fyrir aftan mig veltust um gólfið af hlátri,“ sagði Jones í viðtali við Daily Mail árið 2010.

Enskukennari hvatti hann til að lesa eigin kveðskap og það hjálpaði honum að ná stjórn á rödd sinni, sem síðar átti eftir að skjóta milljónum manna skelk í bringu í Stjörnustríðsmyndunum.

Jones léði Svarthöfða aðeins rödd sína, en David Prowse klæddist svartri skikkju og grímu illmennisins. Í röddinni kristallaðist hins vegar illska hinnar myrku hliðar Máttarins.

„Ég er faðir þinn,“ sagði Svarthöfði við Loga geimgengill, sem Mark Hamill lék, í úrslitabardagasenunni Gagnárás keisaradæmisins, annarri stjörnustríðsmyndinni, og er það sennilega ein eftirminnilegasta vending kvikmyndasögunnar.

„Hann skapaði með mjög takmörkuðum texta eitt mesta illmenni, sem nokkurn tímann hefur verið til,“ sagði George Lucas, leikstjóri og höfundur Stjörnustríðs, í athöfn til heiðurs Jones í New York 2015.

Nánari umfjöllun er að finna í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú stendur frammi fyrir erfiðri ákvarðanatöku. Treystu innra innsæi, það hefur reynst vel hingað til.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Ragnar Jónasson
3
Anna Bågstam
4
Harry Whittaker og Lucinda Riley
5
Elly Griffiths
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú stendur frammi fyrir erfiðri ákvarðanatöku. Treystu innra innsæi, það hefur reynst vel hingað til.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Ragnar Jónasson
3
Anna Bågstam
4
Harry Whittaker og Lucinda Riley
5
Elly Griffiths