Bandaríski tónlistarmaðurinn Tito Jackson er látinn sjötugur að aldri. Banamein hans er óljóst á þessari stundu.
Jackson gerði garðinn frægan ásamt bræðrum sínum, þar á meðal Michael Jackson heitnum, í hljómsveitinni Jackson 5 á sjöunda áratug 20. aldar. Sveitin á að baki fjölmargar verðlaunaplötur og smelli á borð við ABC, Blame it on the Boogie og I Want You Back.
Steve Manning, fjölskylduvinur og fyrrverandi umboðsmaður sveitarinnar, greindi frá andlátinu við bandarísku fréttaveituna Entertainment Tonight.
Synir tónlistarmannsins staðfestu andlát föður síns á Instagram.