„Það sem einkennir plötuna eru hin miklu áhrif frá áhrifavöldum mínum,“ segir tónlistarmaðurinn Richard Scobie um sólóplötu sína, Carnival of Souls, sem kemur út þann 4. október næstkomandi.
Richard þarf vart að kynna fyrir landsmönnum. Hann sló eftirminnilega í gegn með hljómsveitinni Rikshaw á níunda áratug 20. aldar og hefur verið iðinn við kolann alla daga síðan.
Í dag er Richard búsettur á eyjunni Mön í Danaveldi ásamt eiginkonu sinni og syni. Hann sinnir ýmsum spennandi verkefnum samhliða tónlistarsköpuninni, enda mikill lærdómsmaður, en hann er menntaður félagsfræðingur með sérgráðu í þróunar- og borgarskipulagi frá University of San Francisco og nældi sér einnig í meistaragráðu í handritsgerð frá The National Film School of Ireland.
Tónlistaráhugann sótti Richard ekki langt. Hann ólst upp á tónelsku heimili og hlýddi gjarnan hugfanginn á móður sína raula við heimilisstörfin.
„Móðir mín var mjög söngelsk og faðir minn var mikill listamaður í sér, þó svo að tækifærin hafi ekki verið til staðar fyrir þau til að þróa þá hæfileika frekar. Foreldrar mínir eignuðust átta börn sem fengu að njóta hæfileika þerira innan veggja heimilisins.“
Hvenær kviknaði áhugi þinn á tónlist?
„Móðir mín sagði alltaf að ég hefði fæðst flautandi, þannig að líklega hef ég haft áhuga á tónlist frá blautu barnsbeini. Ég man aldrei öðruvísi eftir mér en hlustandi á tónlist og syngjandi og ég var mjög ungur þegar ég vildi læra á hljóðfæri.“
Hvað varð til þess að þú tókst upp gítarinn?
„Það lá einhvern veginn alltaf beint við að ég myndi grípa í gítarinn. Eldri systur mínar hlustuðu mikið á tónlist þess tíma og ég varð fyrir hughrifum af því og kenndi sjálfum mér að plokka strengina. Eftir það var ekki aftur snúið.“
Hvaða tónlistarmaður var í uppáhaldi í æsku?
„Úff, þegar stórt er spurt!
Ég ólst upp á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, tímabil sem margir kalla gullár rokktónlistar, og hlustaði að sjálfsögðu á allar helstu stórstjörnur þess tíma. Plötur með David Bowie, Bítlunum, Slade og Nazareth voru oft settar á fóninn, þetta voru goðin og eru það enn í mínum huga. Rokksveitirnar Rolling Stones, Led Zeppelin, Uriah Heep og Deep Purple komu einnig sterkar inn. Elton John hafði líka mjög mikil áhrif á mig tónlistarlega.“
Hefur tónlistarsmekkurinn breyst með árunum?
„Ég er algjör alæta en ég laðast mest að 70s tónlist og rokktónlist yfirhöfuð. Sænsk vísnatónlist er líklega eitthvað sem ég myndi ekki setja á fóninn.“
Richard er eflaust þekktastur sem forsprakki hljómsveitarinnar Rikshaw þrátt fyrir að vera maður margra hatta. Hann á margar skemmtilegar minningar frá tíma sínum með sveitinni og rifjaði upp eftirminnilegasta tónlistarflutninginn.
„Það var líklega þegar við í Rikshaw hituðum upp fyrir bresku hljómsveitina The Archies á Grosse Freiheit á Reeperbahn í Hamborg. Þegar við byrjuðum að spila var þessi stóri tónleikastaður alveg tómur, en dyrnar stóðu opnar. Við slógum í og byrjuðum að spila og smátt og smátt fór fólk að færa sig inn í salinn og að lokum var salurinn, okkur til mikillar undrunar, alveg stappfullur og allt ætlaði um koll að. Þarna upplifðum við og fengum í fyrsta skiptið staðfestingu á að hljómsveitin höfðaði til breiðari hóps og líka utan landsteinana.”
Rikshaw lagði upp laupana árið 1991 eftir sjö farsæl ár í bransanum. Richard hélt þó áfram í tónlistarsköpun sinni, sendi frá sér plötur og samdi einnig lög fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti.
Hver er hápunktur ferilsins, fram að þessu?
„Ég verð að segja þegar ég var fenginn til að gera lag fyrir Hollywood-bíómynd sem heitir „The Suburbans“, sem var framleidd af J.J. Abrams og Ben Stiller. Valin andlit voru í hverju hlutverki - svo sem Ben Stiller, Will Farrell, Jennifer Love Hewitt og fleiri. Einnig þegar lag sem ég samdi ásamt öðrum var valið í CBS-sjónvarpsþáttinn „The Education of Max Bickford“, sem Óskarsverðlaunahafarnir Richard Dreyfuss og Marcia Gaye Harden léku aðalhlutverk í.“
Richard hefur þurft að takast á við ýmiss konar mótlæti og verkefni í lífinu. Hann segir mikilvægt að huga að heilsunni og þakka fyrir hvern dag.
Hverju ertu stoltastur af?
„Eins og svo margir aðrir þá hef ég gengið í gegnum margar erfiðar áskoranir á lífsleiðinni og kljáðst við þunglyndi, sem hefur á tíðum nánast slegið mig út, alveg frá því að ég var 17 ára gamall. Ég er því í rauninni stoltastur af því að vera á lífi og á þeim góða stað sem ég er í dag. Ég lifi mjög heilbrigðu lífi og hef lagt mikla vinnu í að sníða mér og mínum það líf sem einkennist í dag af jafnvægi og lífsgæðum.“
Hvernig núllstillir þú þig?
„Ég hlusta mikið á tónlist og hljóðbækur á meðan ég æfi. En það sem núllstillir mig hvað mest er að vera úti í náttúrunni og sitja í fallega garðinum okkar hér á eyjunni Mön, en þar gleymi ég mér auðveldlega í að hlusta á og fylgjast með lífríkinu í kringum mig. Ég lærði köfun á sínum tíma, en í dag þá er það að fljóta í hafinu eitt það besta sem ég veit til að ná góðri slökun.”
Síðastliðin fjögur ár hefur Richard unnið hörðum höndum, að vísu með hléum, að gerð nýrrar plötu.
Hvernig kom titill plötunnar til að vera?
„Carnival of Souls vísar í að þetta eru „draugar“ fortíðarinnar sem ég hef áður vísað í. Einnig eru lögin samin yfir alllangt tímabil og má því segja að þau séu líka draugar fortíðarinnar, en svo er lífið bara eitt stórt karnival. Það lá því beinast við að kalla plötuna þessu nafni.“
Hvað uppgötvaðir þú um sjálfan þig við gerð plötunnar?
„Við gerð þessarar sólóplötu þá áttaði ég mig á því að ég hef loksins öðlast sjálfstraustið og trúnna til að takast á við að spila á fullt af öðrum hljóðfærum, ekki einungis hinn hefðbundna gítar sem hefur fylgt mér frá unga aldri. Á þessari plötu spilaði ég á bassa, píanó, Koto, sem er japanskt strengjahljóðfæri, sítar og fleira.“
Hvað ertu fást við þessa dagana?
„Við búum á litlum bóndabæ frá árinu 1700 sem við höfum verið að gera upp síðastliðin ár. Þar erum við með fullt af dýrum sem þarf að sinna og stórt landsvæði. Ég hef og reyni að gera sem mest sjálfur, en þar að auki er ég alltaf að skrifa handrit og þessa dagana er ég að skrifa fyrstu skáldsöguna mína, sem vonandi lítur dagsins ljós á næsta ári. Einnig er ég að vinna að annarri plötu og er hálfnaður með það verk.”