Rapparinn Floni hefur nú þróað nýja bragðtegund af orkudrykk sem ber nafnið Engill. Engill vísar þar í lag af væntanlegri plötu listamannsins, Floni 3. Platan er sú fyrsta síðan árið 2019. Um er að ræða nýja bragðtegund af Orku sem þróuð var í samstarfi við tónlistarmanninn vinsæla. Drykkurinn er kominn í verslanir og er með sítrónu- og límónubragði. Flóni segir það hafi legið beinast við.
„Ég hef elskað límónubragð alveg frá því ég man eftir mér. Þess vegna byrjaði ég þar og svo gerðum við lagfæringar á uppskriftinni þar til mér fannst drykkurinn orðinn eins og ég vildi hafa hann,“ segir í fréttatilkynningu.
Floni er fyrsti tónlistarmaðurinn sem tekur þátt í gerð nýrrar bragðtegundar fyrir Orku, en myndlistarfólk hefur hannað umbúðirnar fyrir eldri bragðtegundir. Jóhannes Páll Sigurðarson, vörumerkjastjóri Orku, segir að þar á bæ hafi fólk verið spennt fyrir því að prófa nýja hluti og að Floni hafi verið eðlilegt skref í ferlinu.
„Orka vill vera hluti af menningu ungs fólks og vettvangur fyrir listsköpun og tjáningu. Floni er því hinn fullkomni listamaður til að vera í forsvari fyrir nýja bragðtegund. Hann er virkilega skapandi og er fullur af hugmyndum. Bæði hvað varðar útlit og útfærslur en líka fyrir bragðið af drykknum sjálfum.“