Hinn 91 árs gamli tónlistarmaður og framleiðandi, Quincy Jones, var lagður til hinstu hvílu í Los Angeles í dag að nánustu fjölskyldumeðlimum viðstöddum. Þetta kemur fram í tímariti Rolling Stone.
Jones lést 3. nóvember á heimili sínu í Bel Air í Kaliforníu eftir sjö áratuga feril í framleiðslu á tónlist. Jones framleiddi m.a. plötur Michael Jacksons; Off the Wall, Thriller og Bad.
Smáskífan We Are the World var gefin út í góðgerðarskyni árið 1985. Lagatextinn var skrifaður af Michael Jackson og Lionel Richie og lagið framleitt af Quincy Jones og Michael Omartian.
Sala smáskífunnar fór yfir tuttugu milljón eintök og er áttunda mest selda smáskífa allra tíma.
Fjölskylda Jones segist horfa á eftir honum með söknuði en þó gleði í hjarta yfir farsælum ferli þrátt fyrir mikinn missi.