Það var sannkölluð tónlistarveisla á Akureyri í gærkvöld en þrennir tónleikar fóru fram í höfuðstað Norðurlands.
Í Hofi voru Friðrik Ómar, Jógvan Hansen og Eyþór Ingi ásamt Selmu Björns, Regínu Ósk og Sölku Sól og stórhljómsveit. Þau halda sjö tónleika um helgina og uppselt á þá alla í Hofi sem tekur um 500 manns í sæti.
Ingó veðurguð spilaði fyrir gesti í Skógarböðunum. Þar var uppselt og komust færri að en vildu.
Á Græna hattinum hélt Þórhallur Sigurðsson, betur þekktur sem Laddi, uppi stuðinu eins og honum er einum lagið ásamt Magna Ásgeirssyni og Hvanndalsbræðrum. Þar var fullt út úr dyrum og mikil stemning.