Beið 40 mínútur inni í jólapakka

Feðgarnir Þór Breiðfjörð og Kristinn Breiðfjörð.
Feðgarnir Þór Breiðfjörð og Kristinn Breiðfjörð. Ljósmynd/Aðsend

Það eru fáir sem gleyma uppátæki ársins í fyrra þegar Þór Breiðfjörð hélt árlega jólatónleika sína. Sonur hans, Kristinn Breiðfjörð, stal þá senunni með óvenjulegu og eftirminnilegu framlagi þegar hann beið í heilar 40 mínútur inni í risastórum jólapakka á sviðinu, áður en hann spratt fram til að syngja við ómælda gleði tónleikagesta.

Þór rifjar upp þessa eftirminnilegu stund: „Ég reyndi að segja við hann að þetta væri alltof langur tími að bíða í pakkanum, en hann tók ekki annað í mál. Grínið myndi ekki virka nema enginn sæi hann.“ Uppátækið vakti mikla lukku og var einn af hápunktum tónleikanna, þar sem feðgarnir blönduðu saman söng og húmor á einstakan hátt.

Í ár snýr Kristinn, sonur Þórs, aftur sem sérstakur gestur á tónleikunum, sem fara fram í Fríkirkjunni í Reykjavik þann 13. desember kl. 20:30. Þór lofar að feðgarnir eigi enn eitt ógleymanlegt kvöld í vændum, þó hann gefi í skyn að þeir gætu verið aðeins þægari en í fyrra. „Kannski verða hlutirnir rólegri en maður veit aldrei með okkur feðgana,“ segir Þór og hlær.

Frumflytur nýtt jólalag

Jólatónleikar Þórs hafa fest sig í sessi fyrir marga sem ein af hátíðarstundum desembermánaðar í Reykjavík, persónulegir tónleikar þar sem gestir njóta sígildra jólalaga, íslenskra jólaperla og hlýrrar stemningar í glæsilegu umhverfi. Með Þór á sviðinu verður tríó skipað Kjartani Valdemarssyni á píanó, Ásgeiri Ásgeirssyni á gítar og Jóni Rafnssyni á kontrabassa.

Í ár snýr Kristinn, sonur Þórs, aftur sem sérstakur gestur …
Í ár snýr Kristinn, sonur Þórs, aftur sem sérstakur gestur á tónleikunum, sem fara fram í Fríkirkjunni í Reykjavik þann 13. desember. Ljósmynd/Aðsend

Í ár verður einnig fagnað endurútgáfu á ástsælli plötu Þórs, Jól í stofunni, sem kemur bæði út á geisladisk og sem árituð og númeruð vínylútgáfa í takmörkuðu upplagi, aðeins 200 eintökum. Platan fangar anda jólanna með hlýjum lögum og hátíðlegri stemmingu og verður hún til sölu á tónleikunum.

Á tónleikunum mun Þór frumflytja glænýtt jólalag sem hann samdi í samstarfi við hinn ástsæla píanóleikara Kjartan Valdemarsson. Lagið ber heitið Kyrrlátt kvöld í desember og var kveikjan að því gönguferð Þórs um Vesturbæ Kópavogs, þar sem hann bjó á þeim tíma.


„Ég skoraði á Kjartan að semja lag við texta sem ég hafði skrifað og viku síðar var lagið tilbúið. Það var ótrúlegt að sjá hvernig þessi hugmynd, sem spratt upp úr kyrrlátri göngu, lifnaði við í fimum fingrum Kjartans," segir Þór.

Þeir sem njóta hátíðlegrar tónlistar, gríns og góðrar jólastemningar ættu ekki að láta þessa einstöku kvöldstund framhjá sér fara. Feðgarnir Þór og sonur hans eru tilbúnir að heilla áhorfendur á ný og gera tónleikakvöldið ógleymanlegt. 

Miðasala fer fram á Tix.is og Þór hvetur tónleikagesti til að tryggja sér miða sem fyrst, þar sem sætaframboð er takmarkað.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þegar þú veist að þú átt betra skilið, skaltu vera með uppsteit. Annars heldur fólk að þér sé sama. Gættu þess að takmarka þig ekki of mikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þegar þú veist að þú átt betra skilið, skaltu vera með uppsteit. Annars heldur fólk að þér sé sama. Gættu þess að takmarka þig ekki of mikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir