Birta Hannesdóttir
Rífandi stemning var á Bullseye síðastliðið miðvikudagskvöld þegar tónlistartvíeykið Nussun frumsýndi nýtt tónlistarmyndband við lagið sitt „Hvað með þig?“
Egill Breki Scheving, áhrifavaldur og annar hluti tvíeykisins, segir í samtali við mbl.is að þeir félagar hafi ákveðið að frumsýna tónlistarmyndbandið með hópi fólks meðal annars til að fagna því að fyrsta smáskífan þeirra „Dansa fram á nótt“ sé komin með milljón streymi á Spotify.
Bæði platan og tónlistarmyndbandið var unnið í samstarfi við tónlistarmanninn Húgó. Lagið „Hvað með þig?“ kom út í mars á þessu ári og er vinsælasta lag hljómsveitarinnar.
Myndbandið var frumsýnt á Spotify en Egill segir að þetta sé í fyrsta sinn sem íslenskt tónlistarmyndband er frumsýnt á miðlinum. Myndbandið er einhvers konar heimildarmynd um ár félaganna en það hefur verið þeirra stærsta til þessa.
Hátíðarhöldin enduðu svo með tónleikum þar sem Egill og Sævar Breki Einarsson, hinn hluti tvíeykisins, tóku nokkur lög af plötunni.