Rapparinn og upptökustjórinn Jay-Z og rapparinn Sean „Diddy“ Combs eru sakaðir um að hafa nauðgað 13 ára stúlku árið 2000 í máli sem var höfðað í gær.
Fram kemur að nauðgunin hafi átt sér stað í eftirpartíi að lokinni MTV-verðlaunahátíðinni í september árið 2000. Þeir eru sakaðir um að hafa byrlað stúlkunni ólyfjan.
Jay-Z, sem heitir réttu nafni Shawn Carter, vísar þessu á bug.
„Önnur fræg manneskja stóð og fylgdist með á meðan Combs og Carter skiptust á að ráðast á stúlkuna sem var undir lögaldri. Margir aðrir voru staddir í eftirpartíinu en gerðu ekkert til að stöðva árásina,“ sagði í dómsskjali.
„Carter hefur verið með Combs í mörgum álíka atvikum sem hérna er lýst. Báðir gerendurnir verða að svara til saka fyrir þetta.“
Jay-Z segir málið, sem tengist fleiri málum sem hafa verið höfðuð gegn Diddy upp á síðkastið, vera tilraun til fjárkúgunar og kveðst ekki ætla að greiða sáttagreiðslu í málinu eins og óskað er eftir. Hann furðar sig einnig á því af hverju málið er höfðað sem einkamál.