Hollywood-stjörnurnar Cher og Dick Van Dyke eru á meðal þeirra fjölmörgu íbúa sem hafa þurft að yfirgefa híbýli sín í Malibu í Kaliforníu vegna skógarelda sem þar geisa.
Eldurinn braust út í fyrrakvöld og á fáeinum klukkustundum hafði hann breiðst yfir 730 hektara, samkvæmt CAL FIRE, sem sér um varnir gegn skógareldum í Kaliforníu.
Van Dyke, sem er best þekktur fyrir leik sinn í söngvamyndinni Mary Poppins frá árinu 1964, greindi frá því á Facebook-síðu sinni í gærdag að hann væri kominn í öruggt skjól ásamt eiginkonu sinni, Arlene Silver, og flestum gæludýrum þeirra. Köttur hjónanna, BoBo, hljóp í burtu rétt áður en þau yfirgáfu heimili sitt og hefur ekki fundist.
Að sögn kynningarfulltrúa Cher hvílist hún á hóteli ásamt gæludýrum sínum.
Margar Hollywood-stjörnur og stjórnendur í kvikmyndaiðnaðinum eiga húsnæði við strandlengjuna, en svæðið er eitt það eftirsóknarverðasta í Suður-Kaliforníu.