Tískudrottningin Matilda Djerf situr undir þungum ásökunum og er sögð leggja starfsmenn sína í hrottalegt einelti. Fyrrverandi og núverandi starfsmenn Djerf Avenue, fatamerki Matildu, lýsa því að hafa upplifað stöðugan ótta í vinnunni og að starfsmenn finni fyrir miklu sálrænu álagi.
Sænska dagblaðið Aftonbladet greinir frá en þar er rætt við ellefu núverandi og fyrrverandi starfsmenn sem hafa starfað hjá Djerf Avenue.
Matilda hefur slegið rækilega í gegn á samfélagsmiðlum og á milljónir aðdáenda alls staðar í heiminum. Hún stofnaði fatamerkið árið 2020 sem notið hefur mikilla vinsælda síðan.
Nokkrir viðmælendur Aftenbladet lýsa því að svefnvandamál og kvíðaköst urðu hluti af þeirra daglega lífi á meðan þau störfuðu fyrir Djerf.
„Fólki líður hræðilega. Ég hef séð svo marga brotna niður. Á hverjum degi hugsuðum við „hversu margir grétu í gær? Hversu margir munu gráta í dag? Mun ég gráta sjálf í dag?,“ sagði einn fyrrum starfsmaður fyrirtækisins.
Annar starfsmaður greindi frá því að á vinnustaðnum væri sérstakt salerni sem aðeins Matilda og hennar „uppáhalds starfsmenn“ mættu nota. Á hurð klósettsins var miði sem á stóð „Vinsamlegast notið ekki“. Starfsmaðurinn lýsir því að einn daginn hafi starfsmaður sem mátti ekki nota klósettið gert það og var honum gert að skrúbba klósettið í refsingarskyni.
„Hún vill ekki einu sinni nota sama klósett og starfsmennirnir sínir. Við erum ekki manneskjur eða samstarfsfólk fyrir henni.“
Djerf Avenue státar sig af fjölbreytileika í markaðssetningu sinni en þeir sem hafa starfað hjá fyrirtækinu segja að sú ímynd eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.
„Starfsmenn sem voru í yfirstærð eða af öðru þjóðerni voru mikið notaðir í auglýsingar fyrir samfélagsmiðla því það myndi líta betur út,“ sagði einn fyrrum starfsmaður fyrirtækisins.
Annar starfsmaður sagði frá myndatöku þar sem fyrirsætan var í yfirstærð:
„Þegar Matilda fékk myndirnar í hendurnar sagði hún að það þyrfti að endurgera þær því að hún væri svo „helvíti feit“ í þessum fötum og við gætum ekki sýnt það.“
Matilda hafði samband við Aftonbladet í kjölfar fréttaflutnings af málinu og sagðist taka ásökunum alvarlega. Hún segist ekki kannast við frásagnir starfsmannanna sinna en kýs að tjá sig ekki um einstaka mál.
„Ef starfsmanni hefur liðið illa í starfi vegna gjörða minna þá harma ég það og biðst afsökunar á því. Það hefur aldrei verið ætlun mín að stuðla að óþægilegu vinnuumhverfi og þykir mér miður að starfsmenn hafi upplifað slíkt. Ég kannast þó ekki við þær ásakanir sem birtust og kýs ég að tjá mig ekki um einstök mál.
Ég vil leggja áherslu á að ég axla ábyrgð og lít á þetta sem tækifæri til að endurskoða og stuðla að betri vinnumenningu fyrir alla starfsmenn Djerf Avenue,“ sagði Matilda í skriflegu svari til sænska blaðsins.