Hvað er þetta með föstudaga og töluna þrettán?
Í dag er föstudagurinn 13. Hann á sér sögu í hjátrúnni, en í nýútkominni bók Símonar Jóns Jóhannssonar, þjóðfræðings og kennara, Svartir kettir, fullt tungl og rauðhærðar konur, er einmitt að finna ýmsan fróðleik um föstudaga og töluna þrettán, sem og þegar að þetta tvennt fer saman:
Lengi hafa föstudagar verið taldir óheilladagar. Enn verra er þegar föstudaginn ber upp á þrettánda dag mánaðarins. Þá bætist við ótrúin sem er á tölunni þrettán.
Hugsast getur að hið góða orðspor sem fór af föstudeginum áður fyrr hafi snúist upp í andhverfu sína fyrir áhrif kristinnar kirkju. Sagan segir að Kristur hafi verið krossfestur á föstdegi, Adam og Eva hafi fallið í freistni á þessum degi og etið af skilningstrénu og að dómsdagur verði á föstudegi.
Talan þrettán er einhver almesta óheillatala sem til er. Að öllum líkindum má rekja þessa ótrú aftur til Súmera sem byggðu Mesópótamíu um 3000 f. Kr. Þeir bjuggu til talnakerfi sem kallað er sex tuga kerfið en þar er grunntalan sextíu.
Talan tólf er grunneining í sex tuga kerfinu og myndar heild. Fyrsta talan sem fer út fyrir þessa heild er talan þrettán sem gerir hana sérstæða og einstaka. Sem einstök tala verður hún einnig heilög og þá um leið hættuleg. Það er einnig algengur þankagangur í þjóðtrú að sé farið út fyrir það sem myndar heild þá skapist hættuástand.
Ýmsar óhappasögur eru til sem tengjast tölunni þrettán og hjátrúarfullir taka enga áhættu þrettánda dag hvers mánaðar og hafa illan bifur á öllu sem við kemur tölunni þrettán. Þeir telja stórhættulegt að ferðast þann þrettánda eða byrja á nýjum verkefnum. Oft eru engin herbergi númer þrettán á hótelum eða sjúkrahúsum og stundum er tölunni sleppt í húsnúmerum og hæðanúmerum í byggingum. Í sumum flugvélum vantar flugsæti númer þrettán.