Tónlistarkonan og leikstjórinn Anna Róshildur, eða Róshildur, gefur út lagið Tími, ekki líða í dag og frumsýnir einnig tónlistarmyndbandið.
Róshildur var í klassísku píanónámi sem barn og allt til unglingsáranna, þegar hún missti áhugann. Hún skipti yfir í „jazzaðra“ nám og fór þá að spila meira eftir eyranu og semja sjálf. Hún segir að nýjar dyr hafi opnast þegar hún síðar lærði að pródúsera tónlist.
Lögum Róshildar má lýsa sem draumkenndu rafpoppi og er innblásturinn fenginn frá tónlistarmönnum á borð við Ólöfu Arnalds og Charli XCX.
Hugmyndin að laginu kom til Róshildar þar sem hún lá milli svefns og vöku, í fjarsambandi, og þrjóskaðist við að sofna vegna þess sem beið hennar er hún vaknaði; kveðjustundin. Línan í laginu „Ég neita að sofna, svo tíminn líði ekki án mín,“ lýsir þessari stund sem hún upplifði.
Það er þessi stjórnleysistilfinning þegar tíminn virðist renna manni úr greipum, verið sé að missa af einhverju. Lagið fangar tilfinninguna og því er ætlað að fá hlustandann með í ferðalagið, líkt og kemur fram í tilkynningu.
Lagið er samið, útsett og flutt af Róshildi.
Myndbandinu leikstýrir hún sjálf í samstarfi við tökumanninn Simon Bendrot. Dansarar í myndbandinu eru Karitas Lotta Tulinius, Sóley Ólafsdóttir, Anna Guðrún Tómasdóttir og Inga María Olsen. Kóreógrafía var í höndum Bjarteyjar Elínar Hauksdóttur, stíliseringu sá Ragnheiður Íris um og Þorgeir K. Blöndal sá um grafíska hönnun.