Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari og eiginkona hans Rósa Björk Sveinsdóttir geisluðu á rauða dreglinum í Los Angeles á dögunum. Tilefnið var frumsýning myndarinnar Captain America: Brave New World en Jóhannes fer með hlutverk í myndinni.
„Það fór frú Rósu vel að vera á rauða dreglinum og ekki leið henni illa í sólinni á Santa Monica-ströndinni,“ skrifar hann undir mynd á samfélagsmiðlinum Instagram. Þar standa þau hjónin glæsileg á rauða dreglinum.
Stórleikarinn Harrison Ford fer með aðalhlutverk í kvikmyndinni ásamt Anthony Mackie og Danny Ramirez. Jóhannes leikur karakterinn „Copperhead.“
Íslenskur fatnaður varð fyrir valinu hjá Jóhannesi fyrir tilefnið og valdi hann dökkbrún jakkaföt með vesti frá Kölska.