Poppsmellurinn Messy hefur farið eins og eldur í sinu um heimsbyggðina undanfarið og komið flytjandanum, hinni bresku Lolu Young, rækilega á kortið. Hún sýnir þar inn í sál sína.
Fyrir fáeinum misserum, meðan Lola Young var að ganga gegnum erfið sambandsslit, settist hún niður í herberginu sínu og samdi lítið lagt. Hvernig er betra að gera þungar tilfinningar upp en einmitt með því að semja sig frá þeim? „Sambandið var á enda og þetta var lúkningin af minni hálfu,“ segir söngkonan í samtali við Variety.
Síðan rölti hún með lagið til útgefanda síns, Island Records, sem leist vel á smíðina og þótti hún tilvalin á aðra breiðskífu Young, This Wasn’t Meant for You Anyway. Fínn hluti af heild, ekkert meira, ekkert minna. Platan átti að koma út vorið 2024 en menn byrjuðu að tína smáskífurnar út strax haustið 2023, eina af annarri, eins og gert er til að kynda undir breiðskífunni. Og veðjað var strax á litla sambandsslitalagið? Nei, ekki aldeilis. Ekki bara ein og ekki bara tvær, heldur fimm smáskífur komu út á undan því ágæta lagi.
„Ég held að enginn hafi kveikt á þessu,“ segir Young í Variety. „Ég var alla vega ekki: Hei, þetta er smellurinn. Útgefandinn minn kveðst hafa vitað hvað hann var að gera en ég held að enginn geti vitað fyrir víst hvað kemur til með að virka. Við vorum með skýra sýn á sándið, hverjar smáskífurnar voru og hvað átti að hafa forgang.“
Á engan er hallað þótt fullyrt sé að fyrstu smáskífurnar fimm hafi ekki komið fram á skjálftamælum. Spyrjið bara Magnús Tuma. Young virtist bara halda áfram að tala inn í tómið, eins og á fyrstu breiðskífunni, My Mind Wanders and Sometimes Leaves Completely, sem kom út ári áður. Umsagnir voru að vísu á jákvæðum nótum og menn upp til hópa á því að stúlkan byggi yfir miklum hæfileikum en smellirnir létu á sér standa. Og fáir vissu hver hún var.
Inn steig sjötta smáskífan af seinni plötunni, sambandsslitalagið okkar, Messy. Jú, jú, fínt lag en áfram fátt að frétta. Lengi vel. Smáskífan kom út síðasta vor og virtist ætla að hljóta sömu örlög og hinar fimm á undan henni. En bíðum nú við! Einhverjir áhrifavaldar á samfélagsmiðlinum TikTok grípu Messy á lofti, sömdu dans við lagið og óvænt og skyndilega fóru hjólin að snúast. Og það á engum smá hraða. Messy æddi upp breska vinsældalistann og linnti ekki látum fyrr en það var komið alla leið á toppinn. Það sama gerðist í Ástralíu, á Írlandi og í Ísrael, auk þess sem lagið skilaði sér inn á topp 20 í Bandaríkjunum.
Lola Young var komin rækilega á kortið.
Nánar er fjallað um Lolu Young í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.