Konur, karlar og kvár víða um heim halda varla vatni yfir breska leikaranum Leo Woodall sem fer með eitt aðalhlutverkanna í nýjustu kvikmyndinni um Lundúnadömuna Bridget Jones, Bridget Jones: Mad About the Boy.
Woodall leikur yngri elskhuga Jones og fær hjarta hennar til að slá örar eftir ansi erfið ár.
Woodall, sem er 28 ára, fæddur 14. september 1996, varð heimsfrægur á einni nóttu þegar fjórða kvikmyndin í þessari sívinsælu seríu var frumsýnd fyrr í þessum mánuði. Fram að þessu hefur ungi leikarinn farið með hlutverk í örfáum kvikmyndum og þáttaröðum, þar á meðal í annarri þáttaröð verðlaunaseríunnar The White Lotus og One Day.
Leikarinn er fæddur og uppalinn í Lundúnum. Hann kaus að feta í fótspor föður síns, leikarans Andrew Woodall, en faðir hans var þó ekki sá sem kveikti í leiklistaráhuganum.
Woodall heillaðist af leiklist eftir að hafa horft á þáttaröðina Peaky Blinders og skráði sig í framhaldi í leiklistarnám við Arts Educational School í Lundúnum. Hann útskrifaðist með BA-gráðu í listum árið 2019, en það sama ár hreppti hann fyrsta hlutverk sitt í sápuóperunni Holby City og lék í einum þætti.
Woodall landaði fyrstu stóru rullunni í lok árs 2023 þegar hann var valinn til að fara með hlutverk Dexter í þáttaröðinni One Day sem fjallar um vinskap hans við stúlku að nafni Emma.
Þáttaröðin sem var frumsýnd í fyrra vakti mikla lukku og var mjög vinsæl á streymisveitunni Netflix.
Woodall hefur svo sannarlega fangað hjörtu fólks um allan heim á stuttum tíma en skömmu eftir frumsýningu Bridget Jones: Mad About the Boy fjölgaði allhressilega í fylgjendahópi hans á samfélagsmiðlasíðunni Instagram, en ríflega 1,2 milljónir manna fylgjast nú með lífi leikarans á síðunni.
Woodall er með fjögur stór kvikmyndaverkefni í bígerð samkvæmt IMDb og mun hann meðal annars fara með hlutverk í stórmyndinni Nuremberg ásamt Óskarsverðlaunahöfunum Russell Crowe og Rami Malek.