Ari Eldjárn uppistandari var útnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarness 2025 við hátíðlega athöfn á bókasafni Seltjarnarness í gær. Ari fékk viðurkenningarskjal ásamt starfsstyrk að upphæð 1.000.000 kr. sem fylgir nafnbótinni.
Í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ kemur fram að frá árinu 2009 hafi uppistand verið aðalatvinna Ara. Hann hafi komið fram með uppistandshópnum Mið-Ísland á meira en 400 sýningum og skrifað handrit að fjórum Áramótaskaupum. Þá hafi Ari einnig komið fram í sýningarröðum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og skrifað og leikið í þáttunum Mið-Ísland og Drekasvæðið. Síðasta áratuginn hafi Ari sýnt yfir 100 sýningar af Áramótaskopinu um allt land, sýnt yfir 100 sýningar á ensku á Fringe-hátíðinni í Edinborg, Melbourne International Comedy Festival og í Soho Theatre í London.
Þá kemur fram að Ari hafi verið búsettur á Seltjarnarnesi síðan 2018, eigi tvær dætur sem gangi í Mýrarhúsaskóla og sé stoltur Gróttupabbi.