Anna Marie Sigmond Gudmundsdottir er íslensk-norsk listakona sem býr og starfar í Noregi. Þar hefur hún notið mikillar velgengni en verk hennar hafa verið sýnd víða um heim auk þess sem hún hefur unnið að fjölda listaverka í opinberu rými eins og til dæmis vegglistaverk fyrir höfuðstöðvar DNB banka í Bjørvika og Háskólann í Stavanger.
Nú vinnur hún að afar stóru vegglistaverki í höfuðstöðvum Alvotech í Vatnsmýrinni. Veggurinn er um 170 fermetrar að stærð, 25 metrar að lengd og tíu metrar á hæð, en fermetrafjöldinn minnkar þar sem tröppur taka frá veggplássinu.
„Þetta er mikil vinna en á sama tíma mjög gefandi og ég elska hana. Það er gaman að vera umkringd mörgu fólki því það skapar meiri núning í því hvernig maður hugsar þegar maður er í beinum tengslum við fólkið sem mun koma til með að horfa á verkið alla daga. Þetta er því líka spurning um samtal og samskipti.
Eins er mjög gefandi að vinna í rýmum þar sem fleiri geta notið verkanna en bara þeir sem sækja söfn og gallerí.
List í almannarýmum er afar mikilvæg og sérstaklega nú á tímum gervigreindar. Það er brýnt að fyrir augum okkar sé eitthvað sem fólk hefur skapað með berum höndum og eigin hugviti. Að fólk geti séð að enn eru til hlutir sem gervigreind getur ekki framleitt,“ segir Anna.
Viðtalið í heild sinni má lesa á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag, fimmtudag.