Kim Kardashian, eigandi SKIMS, hefur fengið nóg eftir að fyrrum eiginmaður hennar, rapparinn Kanye West, réðst á tvö yngstu börn söngkonunnar Beyoncé Knowles og rapparans Jay Z með illyrðum á miðlinum X á þriðjudagskvöld.
Kardashian er sögð miður sín yfir ummælum West og sérstaklega þar sem því var beint að börnum.
„Kim hefur fengið nóg og nú er hún hætt að vera sanngjörn í samskiptum sínum við Kanye,“ segir heimildarmaður vefmiðilsins Page Six. „Óháð því hvaða deilur eru í gangi á milli Kanye og Carter-hjónanna þá má hann alls ekki draga börnin inn í þær.“
Í færslunni á X á West að hafa sett spurningarmerki við „andlega getu“ sjö ára tvíburanna, Rumi og Sir, áður en hann svo eyddi henni.
Hann setti svo inn aðra færslu þar sem hann sagði ástæðu þess að hann eyddi fyrrgreindri færslu vera þá að hann vildi ekki vera útilokaður af miðlinum, hann væri ekki að reyna að vera „góð manneskja“.
Þetta útspil West kemur beint í kjölfarið á lagi sem hann samdi, ásamt elstu dóttur þeirra Kardashian, North West, rapparanum Sean Diddy Combs og syni Combs, Christian King Combs. Kardashian varð alveg æf yfir laginu vegna alvarlegra ásakana á hendur Combs eldri er varða meint kynferðisofbeldi, mansal og kúgun, jafnvel þar sem ólögráða einstaklingar eru fórnarlömb.
West tísti um viðbrögð Kardashian og birti skjáskot af skilaboðum hennar á X. Hann er sagður reiður yfir að hún sé skráð fyrir vörumerki sem innihaldi nafn dóttur þeirra og segist aldrei munu tala við Kardashian aftur.