Í dag, laugardaginn 22. mars, blása nemendur tónlistarskóla FÍH til mikils fögnuðar í húsakynnum skólans að Rauðagerði 27. Um er að ræða árlega söngsýningu skólans, en í ár er þemað engin önnur en hin sögufræga Motown-tónlist!
Áhorfendur geta hlakkað til glæsilegrar sviðsframkomu þar sem dans, söngur og lifandi tónlistarflutningur sameinast í ógleymanlegri upplifun. Fluttir verða helstu sálarsöngvar Motown-plötuútgáfunnar frá árunum 1961-1983, tónlist sem mótaði heilu kynslóðirnar og hefur enn mikil áhrif í dag.
Meðal þeirra laga sem flutt verða eru helstu smellir Marvin Gaye, Stevie Wonder, The Supremes og The Jackson 5.
„Það er búið að vera ógeðslega gaman að fá að læra þessi geggjuðu lög. Tónsmíðarnar eru mun flóknari en ég gerði mér grein fyrir þannig að þetta hefur verið ákveðin áskorun en við höfum notið hverrar mínútu.
Hópurinn er frábær og þó að við höfum nánast búið upp í skóla síðustu vikur er stemningin alltaf góð og allir með sama markmiðið: að gera geggjað show!” segir Sóley Arngrímsdóttir, nemandi skólans.
Margrét Eir, leikstjóri sýningarinnar, tekur undir þetta.
„Það er búið að vera stórkostlegt að vinna að þessu „show-i“ með öllum okkar frábæru og frambærilegu nemendum og ég get ekki beðið eftir að sitja í salnum í dag og kvöld og horfa, hlusta og njóta.”
Tónleikarnir eru tvennir, þeir fyrri kl 16:00 og seinni kl 20:00.