Tveir ákæruliðir hafa bæst við dómsmálið gegn Sean „Diddy“ Combs rappara en hann er sakaður um mansal, fjárkúgun og kynlífsþrælkun.
Ákæruliðirnir tveir sem bætast við varða mansal.
Diddy var handtekinn í september á síðasta ári og hefur verið bak við lás og slá síðan. Í ákærunni á hendur Diddy er hann sagður hafa „misnotað, hótað og kúgað konur og aðra í kringum sig til að uppfylla kynferðislegar langanir sínar, verja orðspor sitt og hylma yfir framgöngu sína“.
Hann er einnig sakaður um að hafa rekið „glæpaveldi“ sem stóð meðal annars að mannráni, íkveikju, nauðungarvinnu og mútum.
Rapparinn hefur neitað allri sök og heldur því fram að allar kynlífsathafnir hafi verið með gagnkvæmu samþykki.
Réttarhöldin yfir Diddy hefjast 5. maí.
Auk alríkismálsins stendur Combs einnig frammi fyrir fjölda einkamála sem hafa verið höfðuð gegn honum. Lögmaður sem starfar sem verjandi nokkurra meintra fórnarlamba segir að einkamálin geti orðið allt að 300.