Anna Elísabet Hákonardóttir, lífskúnstner og áhrifavaldur, lýsir því í nýjasta þætti hlaðvarpsins Veislunnar hvernig ferð hennar til Taílands breyttist á augabragði úr ævintýri yfir í lífshættulegt ástand.
Anna, sem hafði sagt upp starfi sínu hér heima á Íslandi, hafði komið sér vel fyrir í æfingabúðum í Taílandi og var komin með vinnu hjá hótelkeðju.
Hún eignaðist fljótt vinkonu, Meadow Hilary Hope, sem er samfélagsmiðlastjarna með yfir 250 þúsund fylgjendur á TikTok. En ferðalagið tók óvænta stefnu þegar Anna veiktist skyndilega.
„Ég varð bara allt í einu geðveikt slöpp, með hita og kvefuð og bara að deyja,“ segir Anna í þættinum. Hún hélt í fyrstu að þetta væri saklaust kvef og frestaði því að leita til læknis.
Eftir þrjá daga leitaði hún loks á spítala og kom þá í ljós hversu alvarlegt ástandið var.
„Þau sögðu bara: Ef þú hefðir komið seinna hefðirðu getað dáið.“
Aðstæður á spítalanum reyndust einnig krefjandi.
„Þetta voru bara Taílendingar á spítalanum, enginn talaði ensku. Þeir bara: „Þetta er að þér“, og ég skildi ekki neitt,“ segir hún og bætir við að veikindin hafi vakið djúpa heimþrá.
„Þegar maður verður veikur í útlöndum, svona langt í burtu, þá fær maður bara ógeðslega mikla heimþrá. Ég fór að velta fyrir mér: Af hverju er ég svona mikið að forðast að fara heim? Ég saknaði bara allra geðveikt mikið.“
Þetta varð til þess að Anna ákvað að snúa aftur heim til Íslands, sterkari fyrir vikið.
„Af því ég er eitthvað hrædd við það þarf ég að komast yfir þessa hræðslu, “ segir Anna þegar hún lýsir hugarástandinu.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.