Bandaríski leikarinn Nicholas Lea Katt, jafnan kallaður Nicky Katt, fannst látinn á heimili sínu í Los Angeles þann 8. apríl síðastliðinn. Tók hann sitt eigið líf.
Systir Katt, Elise Ravenscroft, staðfesti dánarorsök leikarans í yfirlýsingu sem send var á fréttamiðilinn Deadline í gærdag. Hún greindi frá því að leikarinn hefði svipt sig lífi eftir áralanga baráttu við þunglyndi.
Katt er best þekktur fyrir hlutverk sín í kvikmyndunum Dazed & Confused, Boiler Room og School of Rock og þáttaröðinni Boston Public.
Leikarinn var fráskilinn og barnlaus.
Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218. Píeta-samtökin bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.
Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.