Leikkonan, fyrirsætan og fjölmiðlakonan, Julia Fox, mætti líkt og fjölmargar aðrar stjörnur á Coachella-hátíðina í Indio, Kaliforníu, um liðna helgi.
Fox var í sannkölluðu kúrekaþema og klæddist stuttum brúnum leðurjakka við beinhvítt korselett, reimuðu aftan á bakinu, og stuttum brókum í stíl, reimuðum í hliðunum sem voru þó opnar að aftan svo nælonsokkabuxnaklæddur afturendinn blasti við.
Fyrirsætan var dugleg að deila myndum frá hátíðinni á Instagram-síðu sinni þar sem hún stillti sér m.a. upp með söngkonunni Charli XCX og rapparanum Tyga.
Fox var í svipuðum gír þegar hún mætti til Grammy-verðlaunahátíðarinnar í febrúar, þá klædd í stuttan svartan leðurjakka og gegnsæjan nælonkjól svo þvengurinn skein í gegn og kinnarnar sáust vel. Þá gerði hún gott betur þegar hún mætti í Vanity Fair-Óskarspartíið í mars, nánast á „evuklæðunum“.