Hin árvissa bæjarhátíð Jazzþorpið í Garðabæ fer fram á Garðatorgi nú um helgina og verður öllu umfangsmeiri en sú sem haldin var í fyrra. Verður boðið upp á fjölda tónleika og viðburði við allra hæfi, ungra sem aldinna. Ómar Guðjónsson er listrænn stjórnandi þorpsins og er önnum kafinn við undirbúning þegar blaðamaður slær á þráðinn til hans snemma morguns nokkrum dögum fyrir hátíð. „Við erum að smíða hérna Jazzþorpið, byrjuðum klukkan átta í morgun, tíu manna hópar með hamrana á lofti,“ segir hann eldhress.
Hátíðin hóf göngu sína fyrir þremur árum. „Jazzþorpið er konsept um alls konar listir. Það er matur og drykkur og ástríða, Góði hirðirinn og fleira,“ segir Ómar. „Þetta er hugmynd sem ég kom með fyrir þremur árum og er titlaður listrænn stjórnandi,“ bætir Ómar við. Í raun sé hann eins konar verkstjóri með góða yfirsýn en síðan koma að framkvæmdinni ýmsir starfsmenn Garðabæjar, Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi þar fremst í flokki. „Fólkið sem ber hitann og þungann af þorpinu er Jazzþorpsgengið sem eru upplifunarhönnuðirnir Kristín Guðjóns og Halla Kristjánsdóttir og Hans Vera smiður og ljósmyndari, auk mín og Ólafar. Við byrjuðum að plana þetta þorp nokkrum dögum eftir síðasta þorp og leggjum hjarta okkar í að útkoman sé alltaf betri en síðast,“ segir Ómar.
Hvernig myndir þú segja að hátíðin hafi þróast og breyst frá því þið hélduð fyrsta Jazzþorpið?
„Hún er að stækka á hverju ári, það er meiri músík í ár og minna um göt í dagskránni. Góði hirðirinn kemur inn með miklum krafti núna þannig að það verður meira af húsgögnum, fleiri stofur, það verður bókahorn og fatamarkaður líka þannig að við gerum þetta allt svolítið stærra en samt á sama stað. Síðan verðum við með þrjá listamenn að vinna á staðnum, gítarsmið sem er að smíða gítar, Páll Ivan verður að mála myndir og svo verður leirlistarhópur,“ svarar Ómar. Allt þorpið muni í raun koma fram með einum eða öðrum hætti.
Ómar segir grunnhugmyndina að búa til ævintýraheim. „Þegar þú kemur inn er músík í gangi, fullt af stofum, þú getur keypt stólinn sem þú situr á, það er sérbruggaður bjór fyrir hátíðina, sérvalið náttúruvín og alls konar vín. Síðan er búið að gera sérmatseðil sem Kristinn „Soð“ er með og hugmyndin er að þú getir komið inn og labbað í gegn með börnunum eða bara hangið allan daginn,“ segir Ómar. Til skýringar þá er Kristinn fyrrnefndur Guðmundsson og sá hinn sami og gerði sjónvarpsþættina Soð í Dýrafirði sem sýndir voru á RÚV og í finnska ríkissjónvarpinu.
„Það verður fjölskyldustemning og mikið af eftirtektarverðum hlutum og atriðum. Það verður djassbíll og heitur pottur sem þú getur farið í og horft á tónleikana úr honum. Hann verður boðinn upp í miðju þorpi, við fengum hann gefins frá Trefjum og hann verður seldur til styrktar Krafti,“ segir Ómar en Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Það er því mögulegt að kaupa sér heitan pott á staðnum og njóta hans um leið. „Þú getur líka setið í 30 ára gömlum bíl sem er búið að spreyja í litum þorpsins og notið tónleika í honum. Þetta á að vera upplifun af ýmsum toga. Allir þátttakendur í þorpinu eru með ástríðu, hvort sem það er plötubúðin með djassúrval eða kokkurinn, það er bara algjör ástríða og hún er leynikryddið,“ segir Ómar.
Þú sagðir áðan að fólk gæti keypt sér stól …?
„Það er allt til sölu. Við erum búin að handvelja inn núna, á síðustu mánuðum, dót frá Góða hirðinum. Upplifunarhönnuðirnir okkar eru búnar, í hverri viku síðan í janúar, að safna dóti sem verður í þessum stofum, eins og við köllum þær. Þú getur notið tónleika þar eða komið og fengið þér kaffibolla. Þú getur keypt stólinn sem þú situr á eða borðið sem þú setur drykkinn þinn á. Við seldum í fyrra 70% af öllu sem kom inn frá Góða hirðinum. Þannig að það selst allt, það seldist gítar sem var smíðaður hérna í fyrra og þú getur keypt sófann sem þú situr í. En það má ekki sækja dótið fyrr en eftir tónleika á lokakvöldinu eða á mánudagsmorgun. Annars væri ekkert þorp hérna um helgina ef fólk myndi taka stólana,“ segir Ómar sposkur. Best væri ef allt seldist, eins og gefur að skilja, en nóg verður til sölu af húsgögnum, mottum, speglum og fleiru og allur ágóði rennur til Krafts.
Ómar segir þorpið mikla upplifun, aðgang að því ókeypis og mikinn metnað að baki framkvæmdinni allri. „Við Jazzþorpsgengið leggjum okkur öll í framkvæmdina og það er gaman að finna fyrir meðbyr frá bæjarstjóra og starfsfólki Garðbæjar sem leggur sitt af mörkum,“ segir Ómar.
„Þetta er fjölskylduhátíð með djassbragði,“ segir Ómar, „þorp sem er sett upp og í raun er þetta ekki týpísk djasshátíð, þegar ég setti þetta upp var hugmyndin að búa til ævintýraheim með djassbragði. Síðan erum við að velja inn atriði sem allir geta notið, ekki bara djassgeggjarar. Ég hef stundum orðað þetta þannig að ég sé að búa til hátíð fyrir nágranna minn, fyrir hvern sem er. Það ættu allir að geta notið allra atriðanna.“
Hvað ber hæst í tónlistinni, þeim hluta dagskrárinnar?
„Kvöldtónleikarnir eru sérstakir, lokatónleikarnir eru t.d. stórtónleikar til heiðurs Hauki Morthens,“ svarar Ómar og af þeim sem koma munu fram á þeim má nefna Elínu Hall, Sigurð Guðmundsson, Júníus Meyvant og Ellenu Kristjáns. Á laugardagkvöldi verður haldið upp á 25 ára afmæli Samúel Jón Samúelsson Big Band. „Þríhöfða skepnan sem kemur fram á föstudagskvöldinu er örugglega eitthvað sem ekki ratar á tónleikadagskrá landans á hverju ári. Hammond-leikararnir sem skipa þríhöfða skepnuna eru Tómas Jónsson, Þórir Baldurs og Sara Mjöll en með þeim leikur trymbillinn Magnús Trygvason Eliassen,“ segir Ómar. Hann nefnir fleiri tónlistaratriði í þorpinu, m.a. dúó þeirra Óskars Guðjónssonar og Skúla Sverrissonar og saxófónleikarann Sigurð Flosason ásamt hljómsveit.
Dagskrána í heild má finna á Facebook undir heitinu „Jazzþorpið í Garðabæ“.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.