Nýverið kom út á þýsku í þýðingu Tinu Flecken bókin Sögur og ljóð eftir Ástu Sigurðardóttir. Dagný Kristjánsdóttir ritar eftirmála að útgáfunni sem nefnist Streichhölzer (Eldspýtur) á þýsku og útgefandinn er Guggolz Verlag.
„Óhætt er að segja að viðtökur gagnrýnenda í Þýskalandi, sem á annað borð hafa fjallað um bókina, hafi verið stórkostlegar. Í einum af bókmenntaþáttum þýska útvarpsins, Deutschlandfunk Kultur, var talað um sögur Ástu sem merka bókmenntalega uppgötvun. Í umfjöllun þýska stórblaðsins FAZ (Frankfurter Allgemeine Zeitung) fær verkið lofsamlega dóma og segir meðal annars að kvenpersónur Ástu séu afar nútímalegar og söguröddin eigi sér samhljóm í evrópskum bókmenntum síns tíma, jafnvel þótt Ísland hafi verið einangrað þegar sögurnar voru skrifaðar en þær komu út fyrst snemma á sjötta áratugnum. Gagnnrýnandi NZZ (Neue Zürcher Zeitung) heillaðist af botnlausu hyldýpi söguheimsins og hvernig stjórnleysið næði sterkum tökum á lesendum,“ segir í tilkynningu frá umboðsskrifstofunni Reykjavík Literary Agency.
Starfsmenn umboðsskrifstofunnar segjast finna fyrir miklum áhuga á sögum Ástu um þessar mundir og benda á að enduruppgötvun þeirra kallist á við endurvaktar vinsældir höfunda á borð við Tove Ditlevsen og Luciu Berlin. Safnið er komið á ensku og þýsku og væntanlegt á dönsku og spænsku.
„Franski útgefandinn Sabine Wespieser Éditeur tryggði sér útgáfuréttinn í Frakklandi nýlega og lýsti Ástu sem stórstirni á himni bókmenntanna. Hjá sömu útgáfu í Frakklandi koma út höfundar á borð við Claire Keegan og Edna O’Brien. Sögur Ástu er því svo sannarlega lagðar af stað út í heim.“