Raunveruleikaþáttastjarnan fyrrverandi Sonja Morgan, úr þáttunum Real Housewives of New York City, olli miklum usla á staðnum Tucci í Noho á laugardag þegar veitingastaðurinn neitaði að fella niður reikninginn hennar.
Hún á að hafa kallað til eiganda staðarins, Max Tucci, eftir að hafa fengið 1.000 dollara reikning og krafðist þess að fá afslátt, vegna þess að hún er m.a. einstæð móðir.
„Hún var algjörlega hysterísk og neitaði að borga. Það var eins og hún væri í upptökum fyrir Houswives-þátt og hrópaði: Ég er fræg!“ sagði heimildarmaður við Page Six.
Í gær hafði Morgan greitt reikninginn, ásamt þjórfé, en hún er víst ekki lengur velkomin á staðinn.
Morgan fékk frían mat frá veitingastaðnum áður fyrr og hafði gert ráð fyrir sambærilegu þetta kvöld, sem byrjaði ekki vel því Morgan hafði bókað borð fyrir þrjá en mætti með fimm manns á mjög annasömum tíma á staðnum. Það fór aðeins niður á við þegar hún fékk reikninginn afhentan.
„Ég borga ekki, fólk borgar mér [fyrir að fara á veitingastað þess].“
Eigandi staðarins stóð þó fastur á sínu og ætlaði sko ekki að gefa henni frítt að borða.