Yfirskrift opins bréfs á franska fréttamiðlinum Libération hljóðar svo: „Í Cannes má ekki þagga niður í hryllingnum á Gaza“, en bréfið birtist einnig í bandaríska tímaritinu Variety.
Undir bréfið skrifa m.a. íslenskir kvikmyndaleikstjórar sem hafa átt kvikmyndir á kvikmyndahátíðinni í Cannes: Ásdís Thoroddsen, Benedikt Erlingsson, Grímur Hákonarson, Hlynur Pálmason, Óskar Jónasson, Rúnar Rúnarsson, Valdimar Jóhannsson og Þorsteinn Jónsson.
Bréfið hefst á sögu hinnar palistínsku Fötmu Hassouna, sem starfaði sjálfstætt sem blaðaljósmyndari. Hassouna lést aðeins 25 ára að aldri eftir að hún var skotin af ísraelskum hermönnum. Hún hafði ætlað að gifta sig.
Tíu ættingjar hennar, þ.á.m barnshafandi systir hennar, voru drepnir í sömu árás.
Hassouna var ein aðalviðmælenda í heimildarmyndinni Put Your Soul on Your Hand and Walk eftir Sepideh Farsi, en myndin var valin til heimsfrumsýningar á Cannes-kvikmyndahátíðinni í ár.
Það var í kjölfar dauða Hassounu þann 16. apríl sem yfir 380 manns úr kvikmyndageiranum tóku ákvörðun um að draga ekki úr alvarleika málsins og ekki hunsa þjakandi aðstæður sem samstarfsmenn þeirra eru í. Nöfn eins og Richard Gere, Susan Sarandon og Javier Bardem er að finna á listanum og fjórir fyrrverandi kvikmyndaleikstjórar sem áður hafa unnið til verðlauna í Cannes segjast „skammast sín“ fyrir „aðgerðarleysi kvikmyndaiðnaðarins“.
„Við getum ekki þagað á meðan þjóðarmorð eiga sér stað á Gaza.“