Þríeykið KAJ keppir fyrir hönd Svíþjóðar í Eurovision þó allir þrír séu Finnar að uppruna. Veðbankar spá þeim sigri en lagið þeirra, Bara Bada Bastu, er gríðarlega vinsælt. Svíþjóð er með Íslandi í undanúrslitariðli en 15 lönd keppast um að komast í úrslit í kvöld.
„Við keyptum þetta allt á flóamörkuðum í Helsinki og Axel stal sínu úr leikhúsi í Vaasa,“ segja þeir um jakkafötin sem hafa vakið athygli undanfarna daga.
Spurðir að því hvernig þeim líði með að vera spáð efsta sætinu segja þeir:
„Það er spennandi. Við höfum verið á toppnum síðan í mars og það er rosalega langur tími. En nú er allt að gerast og listamennirnir eru að gefa í. Einhver gæti komið aftan að okkur, sjáum til.“
KAJ – Kevin Holmström, Axel Åhman og Jakob Norrgård – er fyrsta finnska tríóið sem keppir fyrir Svíþjóð og hið fyrsta síðan 1998 sem syngur á sænsku.
Tríóið var líka beðið um álit á íslenska framlaginu, Róa:
„Ég elska það. Ég var í hárþvotti og höfuðnuddi á meðan ég sá æfinguna frá Íslandi – og varð gjörsamlega heillaður. Ég veit ekki hvort það var nuddið eða VÆB-strákarnir, en ég var sleginn. Þeir fara klárlega í úrslit.“
Ísland ríður á vaðið í kvöld og Kevin, Axel og Jakob stíga á svið síðar í sömu lotu.
mbl.is heldur áfram að fylgjast með Eurovision-sirkusnum í Basel en mikill spenningur er fyrir undankvöldinu í kvöld.