Vinsælir júrófarar draga jaðarmenningu fram í ljósið

KAJ keppti með Íslandi í fyrri undankeppni Eurovision.
KAJ keppti með Íslandi í fyrri undankeppni Eurovision. AFP

Framlag Svíþjóðar í Eurovision-söngvakeppninni þetta árið situr nú í efsta sæti veðbanka yfir líklega sigurvegara keppninnar en lagið er sérlega athyglisvert fyrir ýmsar sakir.

Í laginu Bara Bada Bastu, sem á íslensku mætti ef til vill kalla Farðu bara í gufubað, syngur finnska hljómsveitin KAJ á gamansaman hátt um alræmda sauna-menningu Finna.

Margt við lagið og flutning þess er forvitnilegt í menningarsögulegu samhengi og sker það sig á margan hátt frá fyrri framlögum Svía í keppninni.

Ef til vill er það helst út af þeirri staðreynd að það eru Finnar en ekki Svíar sem flytja lagið og jú, vegna þess að það er sungið á sænsku en öll framlög Svía síðustu 27 árin hafa verið flutt á ensku.

Finnar með sænsku að móðurmáli

En hvernig í ósköpunum kemur það til að Finnar skuli syngja á sænsku, fyrir hönd Svía, í Eurovison?

Jú, liðsmenn KAJ eru frá smábænum Vörå á vesturströnd Finnlands og tilheyra þar jaðarmenningarsamfélagi sænskumælandi Finna.

Eins og lesendur sem eru vel að sér um málefni Finnlands þekkja eru bæði finnska og sænska opinber tungumál landsins þó að aðeins 5% landsmanna tali sænsku að móðurmáli.

Sérstakur menningarheimur

Þessi 5% halda sig gjarnan saman, ganga til að mynda í sérstaka sænskumælandi skóla, en það verður að sjálfsögðu líka til þess að sérstakur menningarheimur verður til innan samfélagsins.

Í stærstu borgum Finnlands er til að mynda að finna sérstök sænskumælandi leikhús og í leiklistarskólum landsins er leiklistarmenntun á sænsku mjög frábrugðin þeirri sem er á finnsku.

Þá má til gamans geta að bækurnar um múmínálfana, sem eru ef til vill þekktasta menningarafurð Finna, voru skrifaðar á sænsku af sænskumælandi Finna, Tove Jansson.

Þrátt fyrir að liðsmenn KAJ séu finnskir, keppir hljómsveitin fyrir …
Þrátt fyrir að liðsmenn KAJ séu finnskir, keppir hljómsveitin fyrir hönd Svía. AFP

Upphefja finnsk-sænskar mállýskur

Eins og fyrr segir tilheyra liðsmenn KAJ samfélagi sænskumælandi Finna og vinna nokkuð með þá staðreynd í listsköpun sinni.

Sveitin, sem var stofnuð fyrir 16 árum, vinnur til að mynda mikið með notkun hinna ýmsu finnsku mállýska í sænsku. Það var í raun þessi leikur að mállýskum sem vakti athygli almennings á hljómsveitinni til að byrja með, en árið 2014 hlaut sveitin Svenska Natten-orðuna fyrir framlag sitt til þess að upphefja sænsk-finnskar mállýskur.

Fljótlega eftir stofnun varð KAJ nokkuð vinsæl innan sænskumælandi samfélagsins í Finnlandi en náði aldrei flugi meðal finnskumælandi landa sinna.

Vinsælir heima í fyrsta sinn

Ef til vill er það þess vegna að liðsmenn KAJ mátu líkur sínar á velgengni í forvali söngvakeppninnar meiri í Svíþjóð en heima í Finnlandi.

Það var rétt metið, því KAJ bar að sjálfsögðu sigur úr býtum í Melodifestevalen, söngvakeppni Svía fyrir Eurovison í upphafi þessa árs.

Strax eftir sigurinn varð lagið gífurlega vinsælt um heim allan en ekki síst í heimalandi hljómsveitarinnar. Meira að segja finnskumælandi Finna virtust ánægðir með lagið en finnskir fjölmiðlar hafa sýnt KAJ mikinn áhuga síðustu vikur og mánuði. Er það í fyrsta skipti.

Í laginu Bara Bada Bastu er sungið um Sauna-menningu.
Í laginu Bara Bada Bastu er sungið um Sauna-menningu. AFP

Sungið um breytta bíla

Þó að KAJ-liðar gangist við því að vera nokkurs konar óformlegir sendiherrar finnskrar sænsku tala þeir um að það sé ekki það sem drífi þá áfram í tónlistarsköpun sinni heldur grínið.

Textar KAJ og framkoma er alla jafna mjög kómísk en í Svíþjóð hefur hljómsveitin verið flokkuð undir hatt sænsku tónlistarstefnunnar Epadunk.

Á Wikipedia-síðunni um Epadunk kemur fram að stefnan, sem hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár, dragi nafn sitt frá svokölluðum EPA-traktorum, það er gömlum bílum, gjarnan af gerðinni Volvo, sem hefur verið breytt til að ekki sé hægt að keyra þá hraðar en 30 km á klukkustund.

Slíkir bílar eru sérlega vinsælir í sveitum Svíþjóðar en maður þarf aðeins að vera 15 ára til að keyra þá og er vinsælt meðal unglinga að standa fyrir keppnum þar sem slíkum bílum er ekið.

Örlögin ráðast um helgina

Epadunk-stefnan einkennist af kómískri danstónlist þar sem gamansamir textarnir fjalla gjarnan um áfengisneyslu, kynlíf og jú, EPA-bílamenninguna.

Dæmi um íslenska tónlist sem er í ætt við Epadunk er ef til vill hin ýmsu lög sem gefin hafa verið út af myndbandanefndum menntaskóla síðustu ár, sem og tónlist rapparans Séra Bjössa og hljómsveitarinnar Sprite Zero Klan.

Hvort Epadunk sé það sem koma skal í tónlistarsenu Evrópu á tíminn eftir að leiða í ljós en ekki þarf að bíða lengur en fram á laugardaginn til að vita hvort KAJ og gufubaðssöngur þeirra vinni Eurovison þetta árið.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert maður að meiri ef þú fylgir sannfæringu þinni eftir og lætur meirihlutann ekki hafa áhrif á þig. Sannfæringin gerir þig heillandi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Moa Herngren
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Lucinda Riley
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert maður að meiri ef þú fylgir sannfæringu þinni eftir og lætur meirihlutann ekki hafa áhrif á þig. Sannfæringin gerir þig heillandi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Moa Herngren
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Lucinda Riley